Lífið

Fordæmir Balenciaga eftir að óhugnanlegar myndir fóru í birtingu

Elísabet Hanna skrifar
Kim Kardashian er að endurskoða samstarf sitt við merkið.
Kim Kardashian er að endurskoða samstarf sitt við merkið. Getty/Jeremy Moeller/ Araya Doheny

Athafnakonan Kim Kardashian segir nýja auglýsingaherferð Balenciaga sláandi og ógeðslega. Hún fordæmdi merkið á Twitter í kjölfarið á harðri gagnrýni á nýja auglýsingaherferð tískuhússins. 

Kim er ein af þeim fjölmörgu stjörnum sem starfa opinberlega með Balenciaga. Hún segir auglýsingaherferðina þeirra ýta undir ofbeldi gagnvart börnum.

Myndbirtingarnar sem um ræðir eru af börnum með bangsa í BDSM ólum og tóm vínglös og aðra óviðeigandi hluti í kringum sig. Það voru þó ekki einu myndirnar úr herferðinni sem stuðuðu fólk en myndir sem innihalda dómsskjöl um barnaklám og list af nöktum börnum fóru einnig í dreifingu frá merkinu. 

Balenciaga hefur fjarlægt allt tengt auglýsingaherferðinni af sínum miðlum en áður en það var gert náðust skjáskot af myndunum. Netverjar furða sig á því hvernig hugmyndin náði að fá grænt ljós frá fjölmörgum aðilum og fara í birtingu frá vörumerkinu. 

Skjöl um barnaklám og list með nöktum börnum

Ásamt myndunum sem teknar voru fyrir auglýsingaherferðina af börnunum mátti sjá mynd af skjölum frá bandarískum dóm þar sem fjallað er um lög í tengslum við barnaklám. Skjölin voru undir tösku frá merkinu á myndinni og mátti sjá glitta í textann í þeim.

Önnur mynd af fyrirsætu í skrifborðsstól með bókina Fire from the Sun fyrir aftan sig var einnig hluti af auglýsingaherferðinni. Bókin er frá listamanninum Michael Borremans og inniheldur myndir af nöktum börnum sem hlaupa um með aflimaða líkamsparta þakta blóði. 

Kim hefur rofið þögnina

Sjálf hefur athafnakonan Kim verið í miklu og farsælu samstarfi við merkið undanfarin misseri. Netverjar gagnrýndu að hún tjáði sig ekki strax um málið. Hún segist hafa viljað ræða málið við talsmenn Balenciaga áður en hún birti opinbera yfirlýsingu. Kim segir herferðina ógeðslega og sláandi og segist reyna að skilja hvernig svona hafi getað gerst.

Hún segir öryggi barna alltaf þurfa að vera í fyrirrúmi og að allar tilraunir til þess að gera ofbeldi gagnvart börnum að eðlilegum hlut eigi ekki heima í okkar samfélagi. Kim segist kunna að meta afsökunarbeiðnina og segir vörumerkið gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Sjálf er hún að endurmeta samstarf sitt við Balenciaga.

Hér að neðan má sjá hvað Kim hafði um málið að segja á Twitter:

Ljósmyndarinn fríar sig ábyrgð

Ljósmyndarinn Gabriele Galimberti segist hafa fengið fjölda hatursskilaboða eftir að herferðin fór af stað. Sjálfur er hann þekktur fyrir að mynda börn með uppáhalds hlutunum sínum í kringum sig og kallar þá seríu, sem hann deilir á Instagram, Leikfangasögu (e. Toy Story). Í þessu tilviki segist hann hafa verið beðinn um að mynda fyrirsæturnar og hlutina, sem merkið valdi, í þeim stíl. 

Hér má sjá dæmi um mynd úr leikfangasögu seríunni hans.

Hann segist þó ekki hafa haft neitt með það að gera í hvaða átt herferðin fór og hvaða hlutir hafi verið myndaðir. Hann segist ekki eiga neitt í myndinni þar sem skjölin birtast og að sú mynd hafi verið tekin á öðrum tökustað og ranglega sett fram sem hluti af hans myndum.

Balenciaga biðst afsökunar

Balenciaga hefur gefið frá sér yfirlýsingu og afsökunarbeiðni þess efnis að bangsatöskurnar hefðu ekki átt að vera myndaðar með börnum í auglýsingaherferðinni. „Við erum búin að fjarlægja herferðina af öllum birtingarstöðum,“ sagði einnig í yfirlýsingunni. 

Einnig hyggst merkið ætla að sækja réttar síns gegn þeim aðilum sem settu óviðeigandi hluti á tökustaðinn eins og dómsskjöl tengd barnaklámi.


Tengdar fréttir

Adidas slítur samstarfi við West vegna hegðunar hans

Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas ætlar að slíta samstarfi sínu við tónlistarmanninn Kanye West vegna endurtekinnar særandi hegðunar hans. West hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum og í viðtölum og spúið gyðingahatri.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.