Lífið

Löggan býður upp á Black Fri­day til­­­boð sem allir vilja missa af

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti Black Friday tilboð á umferðarsektum í tilefni dagsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti Black Friday tilboð á umferðarsektum í tilefni dagsins. Vísir/Vilhelm

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að í dag er Svartur föstudagur. Fólk er hvergi óhult fyrir auglýsingum fyrirtækja sem keppast um að bjóða sem best tilboð. Í dag birtist þó heldur óhefðbundin auglýsing, þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti „Black Friday“ tilboð á umferðasektum.

„Í dag er Black Friday tilboð - og raunar er alltaf 25% afsláttur af sektum ef borgað er innan 30 daga,“ segir í stöðuuppfærslu á Facebook síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Stöðuuppfærslan hefur vakið mikla athygli og virðist fólk hafa mikinn húmor fyrir þessu uppátæki lögreglunnar. Á innan við hálftíma höfðu yfir þúsund manns líkað við færsluna.

Í athugasemdakerfi við færsluna voru einhverjir þeirrar skoðunar að þetta sé besta Black Friday tilboð sem þeir hafi séð. „Tilboðið sem allir vilja missa af,“ skrifar annar í athugasemdakerfinu.

Svartur föstudagur eða Black Friday á upphaf sitt að rekja til Bandaríkjanna. Um er að ræða föstudaginn eftir Þakkargjörðarhátíðina þar sem fyrirtæki keppast um að bjóða sem mestan afslátt. Hefðin rataði svo hingað til lands fyrir um átta árum síðan og verður dagurinn stærri og stærri með hverju árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×