Innlent

Fimmtán ára piltur í Grafarvogi stakk jafnaldra sinn

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Meðfylgjandi ljósmynd birti Gunnar Smári í færslu sinni á Instagram í gærkvöldi en þar má sjá lögreglumenn hlúa að fórnarlambi hnífstungunnar.
Meðfylgjandi ljósmynd birti Gunnar Smári í færslu sinni á Instagram í gærkvöldi en þar má sjá lögreglumenn hlúa að fórnarlambi hnífstungunnar.

Fimmtán ára piltur stakk jafnaldra sinn með hníf seint í gærkvöldi. Árásin átti sér stað í Rimahverfi í Grafarvogi. Gunnar Smári Sigurgeirsson, íbúi í hverfinu, birti færslu á Instagram í gærkvöldi þar sem hann lýsti aðstæðum og birti jafnframt ljósmynd af vettvangi.

Gunnar Smári lýsir því að þrír einstaklingar hafi hlaupið af vettvangi og að einn hafi verið stunginn. Ekki hafi þó mikið blætt úr manninum og að lögregla og sjúkrabíll hafi verið fljót á vettvang. 

Óhugnanlegt að krakkar séu með hnífa á sér

Í færslunni segir Gunnar Smári ennfremur að nágrannar hafi margir farið út á svalir og orðið vitni að árásinni. Hann segist ekki vita hvað hafi farið á milli piltanna þriggja og þess sem fyrir árásinni varð. Þó sé óhugnanlegt að vita til þess að krakkar séu með hnífa á sér og reiðubúnir að nota þá.

Í samtali við Vísi segir Gunnar að atvikið hafi átt sér stað í kringum ellefuleytið í gærkvöldi. 

„Það var hellingur af fólki þarna, þetta var beint fyrir neðan íbúðarhús. Mér skilst að það hafi verið þarna þrír aðilar sem hlupu í burtu og svo þrír aðilar sem urðu eftir. Svo sá ég þarna tvær löggur hlúa að honum og tvær sem voru að tala við vitni.“

Árásarmaðurinn í haldi

Í samtali við Vísi staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að málið sé á borði miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu. 

Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús en er að sögn Margeirs ekki í lífshættu. 

„Árásarmaðurinn er í haldi og það verður rætt við hann seinna í dag.“

Þá segir Margeir að umrædd árás sé ekki tengd hópárásinni sem átti sér stað á Bankastræti Club í síðustu viku. „Nei, það er staðfest, þetta er aðskilið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×