Innlent

Enn varað við vatnsveðri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Varað er við vatnsveðri.
Varað er við vatnsveðri. Vísir/Vilhelm

Búast má við talsverðri rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum fram undir hádegi. Því eru líkur á vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar en varað hefur verið töluverðu vatnsverði á þessum slóðum síðustu daga.

Reiknað er með suðaustlægri átt í dag. Verður hún allhvöss eða hvöss með austurströndinni framan af degi, en annars hægari.

Rigning eða súld austanlands til hádegis, en síðar skúrir víða um land, en yfirleitt þurrt og bjart norðvestanlands. Suðaustankaldi og víða skúrir á morgun, en bjart með köflum fyrir norðan og áfram fremur milt veður.

Austlægari á þriðjudag, en hvessir talsvert við suðurströndina og kólnar nokkuð. Þá má jafnvel búast við dálitlum slydduéljum fyrir austan.

Veðurhorfur á landinu

Austan og suðaustan 10-18 m/s, hvassast austast. Rigning á Suðaustur- og Austurlandi, skúrir suðvestanlands, en annars úrkomulítið.

Suðaustan 5-15 í dag og skúrir, en yfirleitt þurrt á Norðurlandi.

Svipað veður á morgun, en hvessir heldur suðvestantil um kvöldið. Hiti 2 til 8 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Suðaustan og austan 5-13 m/s og skúrir, en þurrt að kalla á Norðurlandi. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, 8-13 m/s og úrkomulítið, en 13-18 og skúrir syðst. Slydda eða snjókoma austast undir kvöld. Kólnar í veðri og hiti kringum frostmark seinnipartinn.

Á miðvikudag:

Austan og norðaustan 13-20 m/s og víða rigning eða slydda, en snjókoma inn til landsins. Hiti 0 til 6 stig.

Á fimmtudag:

Ákveðin austan- og norðaustanátt með rigningu, en úrkomulítið suðvestantil. Hiti 2 til 8 stig.

Á föstudag:

Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda með köflum. Hiti 0 til 6 stig.

Á laugardag:

Útlit fyrir stífa suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×