Innlent

Hjalti Úrsus segir bótakröfuna nema tugum milljóna króna

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir feðgar Hjalti Árnason og Árni Gils, sem lést í sumar aðeins 29 ára gamall. Hjalti heldur því fram að sonur sinn hafi mátt sæta harðræði af hálfu lögreglunnar og tilhæfulausrar einangrunarvistar. Hann vinnur nú að risastóru skaðabótamáli á hendur ríkinu.
Þeir feðgar Hjalti Árnason og Árni Gils, sem lést í sumar aðeins 29 ára gamall. Hjalti heldur því fram að sonur sinn hafi mátt sæta harðræði af hálfu lögreglunnar og tilhæfulausrar einangrunarvistar. Hann vinnur nú að risastóru skaðabótamáli á hendur ríkinu. vísir/vilhelm

Sonur Hjalta, Árni Gils, lést í sumar aðeins 29 ára gamall. Hann var fyrir nokkrum árum dæmdur í fangelsi og sat nærri 300 daga í einagrun, gæsluvarðhaldi og fangavist, þar til honum var sleppt eftir að í ljós komu gríðarlegar brotalamir í málinu. 

Árni Gils var svo sýknaður í Landsrétti og nú er í gangi risastórt skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu. Hjalti Úrsus Árnason var gestur í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar þar sem hann ræddi málið sem hann segir með hinum mestu ólíkindum.

„Ég mun fara með það alla leið. Þegar ég skoða myndir af honum sem barni hugsa ég bara hvernig svona lagað getur gerst. Hann var á köflum í slæmum félagsskap og neyslu, en illmenni var hann ekki. Ég held að það hafi verið búið að dæma hann fyrirfram,“ segir Hjalti í samtali við Sölva.

Segir ekki standa steinn yfir steini í málatilbúnaðinum

Hjalti lýsir handtökunni sem átti sér stað á þeim tíma sem Árni Gils var í fylleríisrugli.

„Hann settist upp í lögreglubíl og þeir byrjuðu að reyna að taka hann í bílnum, en það gekk lítið af því að hann var svo stór og mikill. En svo náðu þeir að rífa hann út og beittu táragasi og handjárnuðu hann. Hann fullyrti alltaf við mig að eftir þetta hafi hann verið færður inn í fangaklefa og verið barinn á fullu járnaður af lögreglumönnum,“ segir Hjalti.

Hann lýsir því þá að eftir þetta hafi Árni Gils upplifað það sem svo að lögreglan væri beinlínis á móti honum og að það væri eins og að það ætti að taka hann úr umferð.

,,Hann var sakaður um að hafa stungið mann í höfuðið með stórum hníf. En nú er komið fram svo margt sem sýnir að þessi frásögn gengur ekki upp. Það er til dæmis komið í ljós að það var ekkert blóð á vettvangnum, hinn maðurinn hefur viðurkennt að hafa sjálfur mætt með hnífinn á vettvang og hefur viðurkennt að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Sárið sem hann var með passar engan vegin við lýsinguna á því hvernig hann á að hafa verið stunginn.“

Hjalti segir að nú hafi réttarmeinafræðingar og fleiri staðfest að þetta gat ekki hafa gerst á þann hátt sem lýst var.

„Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu máli alveg frá upphafi…..Það sem raunverulega virðist hafa gert þetta kvöld er að maðurinn hafi ráðist að Árna með hnífnum og Árni hafi náð að afvopna hann, enda stór og sterkur, og kastað svo vopninu í burtu og þar við situr. Maðurinn stökk í burtu og lét sig hverfa. Hann var ekki meira meiddur en það að hann stökk í burtu og fór afsíðis. Kjarni málsins er að það er komið í ljós að það var ekki einn einasti blóðdropi á svæðinu þar sem þeir voru að takast á. En síðan mætir maðurinn talsvert síðar niður á spítala alblóðugur með sár ofan á höfðinu. Hann hefur áður gerst sekur um að sækja pening úr bótasjóði og nú er komið í ljós að það stendur ekki steinn yfir steini í upphaflegu frásögninni.“

Yfirheyrður svo gott sem nakinn

Þá lýsir Hjalti því að í seinni réttarhöldum hafi það svo gerst í þrí- eða fjórgang að vitni breyttu frásögn sinni. Læknarnir viðurkenndu að sárið hafi verið mjög skrýtið og að þeir hafi ekki séð svona sár miðað við frásögnina á því sem átti að hafa gerst. Hjalti hefur barist fyrir því að hreinsa mannorð sonar síns undanfarin ár og segir ferlið þannig að þar gangi ekkert upp.

,,Það var brotið á honum á svo marga vegu. Það gleymdist til dæmis að ná í hann svo hann fengi að vera viðstaddur réttarhöldin eftir að Hæstiréttur hafði snúið dómi Héraðsdóms og hann var í fangelsi allan tímann. 

Árni Gils var að endingu sýknaður í málinu en eftir stendur að hann mátti sæta harðræði og einangrunarvist sem þýðir að hann á rétt á bótum. Þær bætur sem hafa þegar verið greiddar eru lágar að sögn Hjalta, í öllum samanburði.vísir/vilhelm

Hann var allt í allt nærri 300 daga í fangelsi og einangrun út af þessu máli. Hann var yfirheyrður allt að því nakinn, í einhverri sundskýlu og sagði í yfirheyrslunni að hann vildi komast í föt. Þá var honum bara sagt að þetta væri ekki tískusýning!“

Hjalti segir að þeir feðgar hafi farið með málið til eftirlitsnefndar um störf lögreglu, sem tók málið til umfjöllunar, en það tók um átta mánuði að fá svör.

Þar var sagt að hann hafi verið með handklæði yfir öxlina eins og það réttlætti þar með að hann hafi að öðru leyti verið hálfnakinn í yfirheyrslunni. Svo var í svarinu sagt að því miður hafi annars nær öll gögn málsins týnst, en það yrði reynt að bæta upp fyrir það. Einverra hluta vegna er eins og allt í kringum þetta mál hafi týnst, sem á ekki að geta gerst.“

Skaðabótamál þar sem krafist verður tuga milljóna

Hjalti er nú í skaðabótamáli við ríkið eftir meðferðina á syni hans og heitir því að hann muni fylgja því máli eftir alla leið. og við munum taka það alla leið.

„Ef að það koma verulegar bætur, þá vil ég nota skaðabæturnar til þess að stofna sjóð í nafni sonar míns, sem verður notaður til þess að hjálpa öðrum sem gætu lent í svipuðum sporum.”

Vísir hafði samband við Hjalta og spurði hann hvaða upphæðir væri um að tefla og sagði hann að þær hlypu á tugum milljóna. „Sjóðurinn þarf að vera þannig að hægt sé að fá lögmenn til að skoða mál sem eru þess eðlis að við teljum að pottur sé brotinn. Og þá munum við skaffa lögmenn viðkomandi að kostnaðarlausu.“

Málið er í kerfinu eins og staðan er í dag en lögmaður Hjalta er Oddgeir Einarsson. Hann vonar að í vor verði línur farnar að skýrast og þá komi í ljós hvort málið fari fyrir dómsstóla.

„Þeir hafa greitt lítinn hluta af bótunum. Við tókum við því með þeim fyrirvara að við myndum krefjast fullra bóta. Það var ekki há upphæð,“ segir Hjalti. Reyndar óásættanleg og Hjalti vísar til bókagreiðslna sem menn hafafengið vegna handtöku og þvingunarúrræða sem eru talsvert vægari en þau sem Árni Gils mátti sæta.

Árni Gils brotinn maður

Ljóst er að málið allt hefur reynst þeim feðgum afar þungbært. Hjalti lýsir í þætti Sölva atburðarrásinni í kringum það þegar dómnum var snúið og sonur hans sýknaður

„Ég náði að hringja í hann í fangelsið til að segja honum að hann væri frjáls og að það ætti að sleppa honum. Svo heyrði ég bara fólk kalla á bakvið hann úr fangelsinu: „Sleppið honum, sleppið honum!“

Ég hringdi svo strax í Brynju dóttur mína til að segja henni að hann væri frjáls og við værum að fara að sækja hann. Hún var í skólanum og allur bekkurinn hennar fór bara að gráta. 

Svo kem ég að fangelsisdyrunum að sækja hann, en þar var mér sagt að það væri ekki heimsóknartími. Ég segi þeim að ég sé með dóminn og sýni þeim hann, en það tók líklega tvo klukkutíma að fá hann lausan. 

Mikill málarekstur hefur verið vegna mála Árna Gils og hér er Hjalti staddur í héraðsdómi Reykjavíkur við eitt slíkt tækifæri.vísir/vilhelm

En svo förum við heim og ég ætlaði bara að grilla og fara svo í bíó, en þá áttaði ég mig á því hvað hann var tættur andlega eftir þetta allt saman. Það að sleppa úr fangelsinu var bara fyrsta skrefið í að ná sér á strik. Maður fattar ekki hvað svona gríðarlegt inngrip hefur mikil áhrif á fólk.“

Hjalti syrgir son sinn og segir málið hafa fengið verulega á sig, eins og gefur að skilja.

„Það var farið að birta svo mikið til hjá honum áður en hann dó. Ég hafði ekki séð hann svona vel stemmdan í mjög langan tíma og þess vegna var þetta svo sárt. Ég man að vikuna áður en hann dó fórum við í Costco saman og þá sagðist hann vera kominn í Orlando-fílinginn, þar sem honum leið alltaf best. Við fórum svo að skoða bíl saman og hann var útskrifaður af Reykjalundi og það var mikil birta yfir honum.“

Hjalti segir að sér reynist nú erfiðast að skoða myndir af syni sínum sem barni.

„Hvernig gat þetta gerst? En lífið fer víst ekki alltaf eftir formúlunni sem að maður sá fyrir sér.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×