Innlent

Spor­vagn skreyttur norður­ljósum í til­efni af for­mennsku Ís­lands

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá borða klipptan áður en sporvagninn var tekinn í notkun.
Hér má sjá borða klipptan áður en sporvagninn var tekinn í notkun. Utanríkisráðuneytið

Ísland tók í dag formlega við formennsku Evrópuráðsins af Írum á fundi ráðherraráðsins í Strassborg. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra er nýr formaður ráðherranefndarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland tekur við formennsku ráðsins.

Þórdís Kolbrún tók við formennskunni af Breifne O‘Reilly, fastafulltrúa Írlands gagnvart Evrópuráðinu. Ísland mun sinna embættinu í sex mánuði eða þar til í maí 2023 þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn hér á landi. Fundurinn verður sá fjórði frá upphafi.

Þegar hún tók við nýtti Þórdís Kolbrún tækifærið og kynnti formennskuáætlun Íslands í ráðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Formennskuáætlunina má sjá með því að smella hér.

Haft er eftir Þórdísi Kolbrúnu þar sem hún segir helsta markmið formennskutíðar Íslands vera að efla grundvallargildi ráðsins ásamt því að „leggja sérstaka áherslu á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.“

„Ísland fær það ábyrgðarmikla verkefni að leiða Evrópuráðið á tímum sem fela í sér miklar áskoranir. Grundvallargildi ráðsins - lýðræði, réttarríkið og mannréttindi – eiga undir högg að sækja eins og hörmulegt árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu sýnir svo glöggt. Helsta markmiðið í formennskutíð Íslands verður því að efla þessi grundvallargildi og styrkja ráðið sem málsvara þeirra. Ísland tekur forystuhlutverki sínu alvarlega á þessum krefjandi tímum,” segir Þórdís Kolbrún.

Í tilefni formennsku Íslands í ráðinu var sporvagn skreyttur norðurljósum tekinn í gagnið í Strassborg í dag og fékk Þórdís Kolbrún far með vagninum að ráðhúsi borgarinnar þar sem íslenska fánanum var flaggað.

Hér að ofan má sjá umfjöllun um málið úr kvöldfréttum. 


Tengdar fréttir

Leið­toga­fundur Evrópu­ráðs haldinn í Reykja­vík

Leiðtogafundur Evrópuráðs verður haldinn á Íslandi í maí á næsta ári. Fjörutíu og sex ríki eiga aðild að ráðinu. Fundurinn verður umfangsmesti leiðtoga-og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×