Menning

Dvöldu í svartasta skammdeginu á Grænlandi

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hjónin Rósa Sigrún og Páll Ásgeir opna saman sýninguna Rörsýn.
Hjónin Rósa Sigrún og Páll Ásgeir opna saman sýninguna Rörsýn. Ingibjörg Jónsdóttir.

Hjónin Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson opna sýninguna Rörsýn næstkomandi fimmtudag. Rósa Sigrún er myndlistarmaður og Páll Ásgeir rithöfundur og leiðsögumaður en þetta er í fyrsta sinn sem þau opna sýningu saman.

Innblásturinn fyrir sýningunni er með sanni óhefðbundinn og áhugaverður en Rósa Sigrún dvaldi sjö vikur í Oqaatsut, rétt norðan við Ilulissat á vesturströnd Grænlands í svartasta skammdeginu á síðasta ári.

„Samfélag 25 íbúa, lamað af Covid hömlum í kulda og myrkri árstíðarinnar gaf fá tækifæri til beinna samskipta en sjónauki á þrífót í stofunni gaf færi á skoðun úr fjarlægð,“ segir í fréttatilkynningu.

Páll Ásgeir dvaldi með henni í Oqaatsut en saman skoðuðu þau grænlenskt samfélag í heimskautarökkrinu og fyrstu áhrifin birtast á þessari sýningu í teikningum Rósu og ljósmyndum og ljóðum Páls Ásgeirs.

„Flat Poetry“Páll Ásgeir Ásgeirsson

Í fréttatilkynningu segir einnig:

„Í augum aðkomumanns er margt undarlegt í árþúsunda menningu mótaðri af myrkri og kulda, skorti og gnótt á víxl. Samfélagið líkist ísjaka. Aðeins 10% eru sýnileg. Annað er utan seilingar og lítt greinilegt. Tímabundinn gestur verður fljótt grunnhygginn sérfræðingur í yfirborðinu og skautar á því þegar heim er komið án þess að sjá myrkrið í djúpinu.“

Rósa og Páll eru mikið ævintýrafólk.Aðsend

Sem áður segir ber sýningin nafnið Rörsýn:

„Þessi sýning er brot af því sem við sáum, einskonar rörsýn inn í samfélag þjóðar sem er í senn svo nálæg Íslendingum en þó svo óralangt í burtu,“

segja hjónin.

Ljósmynd af sýningunni.Páll Ásgeir Ásgeirsson

Segja má að þessi sýning sé eins konar undirbúningur einkasýningar Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem henni hefur verið boðið að halda í Ilullissat sumarið 2023 og mun fjalla um líka hluti.

Sýningin opnar klukkan 17:00 á fimmtudaginn í Artak 105 Gallerí, Skipholti 9 og stendur til 23. nóvember næstkomandi.


Tengdar fréttir

KÚNST: Kvennakraftur í kirkjugarði

„Ég vildi fá að hafa smá femíniska slagsíðu í þessu,“ segir listamaðurinn Þrándur Þórarinsson um verk sem hann málaði af Þorbjörgu Sveinsdóttur, ljósmóður og kvenréttindabaráttukonu, og Guðrúnu Oddsdóttur, fyrstu manneskjunni sem var jörðuð í Hólavallagarði. Þrándur er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.

KÚNST: Á­kvað að verða mynd­listar­maður þegar hann var tíu ára

Sigurður Sævar Magnúsarson er listamaður sem segir listina hafa fylgt sér nánast allt sitt líf. Hann festi nýverið kaup á gamla Argentínuhúsinu á Barónsstíg þar sem hann hyggst setja upp ýmsa menningar- og listviðburði á næstu árum. Sigurður Sævar er viðmælandi vikunnar í nýjasta þætti af KÚNST.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.