Skjálfti 4,2 að stærð mældist í Bárðarbungu rétt fyrir klukkan þrjú síðdegis í dag. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst í kjölfarið.
Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að sjö skjálftar yfir fjórum að stærð hafi mælst í öskjunni í Bárðarbungu á síðustu tveimur árum. Virknin hafi því verið nokkuð stöðug síðustu misseri.
„Þetta er virkni sem hefur verið í nokkur ár og er svona frekar eðlileg; að svona skjálftar af þessari stærðargráðu komi á nokkurra mánaða fresti. Þannig að þyrfti að vera nokkuð meiri virkni svo að við færum að setja okkur eitthvað meira upp á tærnar fyrir Bárðarbungu,“ segir Einar Bessi.
Síðasti stóri skjálftinn í Bárðarbungu varð í sumar, en í júlílok mældust tveir skjálftar, 4,4 og 4,9 að stærð. Þá varð skjálfti 4,4 að stærð í maí og hið sama var uppi á teningnum í mars; skjálfti 4,1 að stærð.
„Þetta er svona reglulegur atburður í Bárðarbungu,“ segir Einar Bessi að lokum.
