Innlent

Þrír sagðir hafa ráðist á mann við fjöl­býlis­hús

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Eitt útkalla sneri að tilkynningu um slagsmál við fjölbýlishús þar sem þrír eru sagðir hafa ráðist á einn.

Í dagbók lögreglu segir að engar kröfur hafi komið upp að svo stöddu varðandi mögulega kæru og var sömuleiðis ekki talin þörf á sjúkrabíl. Ekki er tekið fram hvenær útkallið barst eða hvar slagsmálin voru, nema að þetta hafi verið á svæði lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Kópavog og Breiðholt í Reykjavík.

Einnig segir frá því að vegfarandi hafi tilkynnt um hóp ungmenna sem var að stappa á Hopp rafmagnshjóli. Hópurinn sagðist þó ekki kannast við neitt þegar lögregla bar að garði, en vegna aldurs voru afskipti lögreglu tilkynnt bæði til foreldra og barnaverndar.

Í dagbók lögreglu segir einnig að tilkynnt hafi verið um þjófnað á fatnaði úr verslun í miðborð Reykjavíkur. Er lýsing til staðar á geranda og sömuleiðis myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi. 

Sömuleiðis var tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun. Meintur gerandi var á staðnum þegar lögregla mætti og var málið afgreitt þar.

Nokkuð var tilkynnt um umferðaróhöpp og grunsamlegar mannaferðir á höfuðborgarsvæðinu bæði í gærkvöldi og í nótt. 

Þá segir einnig frá því að ökumaður bíls hafi verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var ekki með skilríki og reyndi að gefa upp kennitölu annars manns. Hann var látinn laus eftir afgreiðslu málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×