Innlent

Hætta með nætur­strætó

Bjarki Sigurðsson skrifar
Djammarar þurfa nú að reyna að fá leigubíl, labba eða fá far heim.
Djammarar þurfa nú að reyna að fá leigubíl, labba eða fá far heim. Vísir/Vilhelm

Strætó hefur ákveðið að hætta að bjóða upp á næturstrætó um helgar. Ljóst er að farþegafjöldi í næturstrætó var ekki jafn mikill og búist var við. 

Næturstrætó sneri aftur í byrjun júlí eftir tveggja ára hlé. Þá var ekið á klukkutíma fresti úr miðbænum í sjö hverfi höfuðborgarsvæðisins. Síðasta ferð var alla jafna um klukkan hálf fjögur að nóttu til. 

Í septembermánuði voru að meðaltali fjórtán til sextán farþegar í hverri ferð. Um hverja helgi voru rétt rúmlega þrjú hundruð farþegar sem nýttu sér þjónustuna. Í tilkynningu frá Strætó segir að vonast var eftir því að farþegar yrðu fleiri en það. 

„Í ljósi þessa og fjárhagsstöðu Strætó, samþykkti stjórn Strætó að ekki sé réttlætanlegt að halda áfram akstri næturstrætó um helgar nú að loknum reynslutíma og verður því þeirri þjónustu hætt,“ segir í tilkynningunni. 

Samgöngur úr miðbæ Reykjavíkur eftir næturlífið eru nú sárafáar. Ekki er leyfilegt að vera undir áhrifum áfengis á rafmagnshlaupahjólum og erfitt er að fá leigubíl um helgar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×