Innlent

Dóms­mála­ráð­herra leggi til harðari stefnu en ná­granna­­þjóðir

Ellen Geirsdóttir Håkansson og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra hefur lýst yfir vilja sínum til þess að takmarka ferðir flóttafólks sem hefur hlotið synjun á dvalarleyfi sínu. Hann segir nauðsynlegt að nýtt búsetuúrræði verði byggt upp til þess að takmarka megi för flóttamanna fyrir brottvísun. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata segir tillögur ráðherra umdeildar, hún óttist að verið sé að kynda undir óþarfa ótta.

Dómsmálaráðherra segir núverandi kerfi hér á landi ekki uppfylla skilyrði Schengen sáttmálans og Ísland hafa fengið ákúrur vegna þessa. Frumvarp um breytingar á útlendingalögum sé væntanlegt á næstu dögum.

Búist er við því að flóttamenn sem komi til landsins verði um fimm þúsund í ár en meira en 3200 flóttamenn hafa lagt leið sína hingað það sem af er ári.

Það sem af er ári hafa ríflega 3.200 sótt um vernd hér á landi.Grafík/Kristján

Aðspurð hvernig hún horfi á hugmyndir dómsmálaráðherra um búsetuúrræðin segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata leiðinlegt að sjá hann vera að beita sér í máli sem enginn ágreiningur hafi verið um, þetta hafi ekki verið vandamál.

Hún veltir því upp hvort hugmyndir um búðir fyrir fólk sem hafi hlotið synjun og standi til að flytja úr landi sé frá Danmörku komin. Þar dvelji fullorðnir og börn í búðum til lengri tíma, jafnvel ára. Búðirnar séu til dæmis fyrir fólk sem ekki sé hægt að flytja úr landi.

„Þetta eru opnar búðir þar sem fólk getur komið og farið að vild þó það þurfi að dvelja þar og svo sem njóti ekki mikilla réttinda. Þannig að ráðherra er að mörgu leyti kannski að leggja til að við göngum lengra heldur en Danmörk, sem að er þekkt fyrir virkilega harða stefnu í málefnum flóttafólks,“ segir Arndís.

Hún segist hafa áhyggjur af því að orðræða dómsmálaráðherra undanfarið sé að búa til óþarfa ótta hjá flóttafólki.

„Það sannarlega hefur áhrif á samfélagsumræðuna og samfélagið allt og er mjög slæmt, við eigum að vera að vinna í hina áttina,“ segir Arndís.

Viðtalið við Arndísi má sjá í spilaranum hér að ofan. 


Tengdar fréttir

Telur dóm veita tvö hundruð flótta­mönnum sem átti að vísa úr landi rétt á efnis­með­ferð

Palestínumaður, sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi en fékk ekki efnismeðferð, bar ekki ábyrgð á miklum töfum á meðferð máls hans. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi í málinu í gær. Lögmaður segir málið fordæmisgefandi í málum allra þeirra sem sótt hafa um hæli hér á landi og ílengdust vegna kórónuveirufaraldursins. 

Ósammála um hvort fólk komi af neyð eða í leit að betra lífi

Þingmaður Miðflokksins segir aðsókn flóttafólks til landsins vera hlutfallslega þá langmestu í Evrópu. Þingmenn eru ósammála um hvort flóttafólk komi hingað í neyð eða í leit að betra lífi. Tekist var á um árangur Norðurlandaþjóðanna í innflytjendamálum að lokinni sendiferð allsherjar- og menntamálanefndar til Danmerkur og Noregs á Sprengisandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×