Innlent

Hætta rann­­sókn Ó­s­hlíðar­­málsins

Árni Sæberg skrifar
Bíllinn sem Kristinn var í er sagður hafa oltið sextíu til sjötíu metra niður Óshlíð.
Bíllinn sem Kristinn var í er sagður hafa oltið sextíu til sjötíu metra niður Óshlíð. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Vestfjörðum hefur ákveðið að hætta rannsókn á mannsláti í Óshlíð árið 1973. Niðurstaða rannsóknar réttarlæknis var sú að ekkert benti til annars en að farþegi í bíl sem hafnaði utan vegar hafi látist af afleiðingum umferðarslyss. 

Kristinn Haukur Jóhannesson var aðeins nítján ára gamall þegar hann lést í umferðarslysi í Óshlíð á Vestfjörðum árið 1973. Hann var farþegi í leigubifreið sem hafnaði utan vegar.

Í maí síðastliðnum voru jarðneskar leifar Kristins grafnar upp og rannsakaðar af réttarlækni að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum með samþykki ættingja Kristins. Ættingjarnir telja að rannsókn lögreglu á sínum tíma hafi verið ábótavant og fóru fram á að rannsókn yrði tekin upp á ný. Á dögunum skilaði réttarlæknir niðurstöðum rannsóknar sinnar.

Niðurstaðan mikil vonbrigði

Sem áður segir hefur lögreglan nú ákveðið að fella niður rannsókn málsins á þeim grundvelli að niðurstöður réttarlæknis bendi til þess að Kristinn hafi látist í umferðarslysi. Ættingjar Kristins, sem fréttastofa hefur rætt við, segja þau málalok mikil vonbrigði. Ekki hafi þó verið tekin ákvörðun um að kæra niðurstöðu lögreglunnar til ríkissaksóknara.

Það hafa ættingjarnir gert áður þegar lögreglan ákvað að hafna upphaflegri beiðni ættingjanna um að rannsókn málsins yrði tekin upp á ný. Lögreglan taldi ekki forsendur fyrir því enda hefðu engin ný gögn komið fram í málinu. Ríkissaksóknari lagði fyrir lögregluna á Vestfjörðum að taka til skoðunar ákveðna þætti málsins, svo sem ljósmyndir af bílflakinu sem teknar voru á sínum tíma af blaðaljósmyndurum. 

Lögreglan fékk samkvæmt heimildum fréttastofu álit sérfræðinga á ástandi bílsins eftir slysiðog það skoðað út frá ljósmyndum sem teknar voru á sínum tíma. Samkvæmt heimildum var það mat þessara sérfræðinga að ekkert bendi til annars en að bíllinn hafi oltið miðað við ljósmyndirnar. 

Tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum má sjá í heild sinni hér að neðan. Ekki hefur náðst í Birgi Jónasson, settan lögreglustjóra á Vestfjörðum, við vinnslu fréttarinnar en í lok tilkynningar segir að lögreglan muni ekki fjalla frekar um málið í fjölmiðlum.

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur lögreglan á Vestfjörðum haft til rannsóknar tildrög andláts farþega fólksbifreiðar, sem hafnaði utan vegar á Óshlíð 1973. Auk ökumanns bifreiðarinnar voru tveir farþegar í bifreiðinni, annar í framsæti við hlið ökumanns en hinn í aftursæti. Sá síðarnefndi lést.

Atvikið var á sínum tíma rannsakað sem umferðarslys, eða svonefnd „mannskaðarannsókn“. Og málinu lokið af hálfu lögreglunnar á Ísafirði. Ríkissaksóknaraembættið fékk málið til meðferðar á þeim tíma og staðfesti þá ákvörðun.

Nánustu ættingjar hins látna settu sig í samband við lögregluna á Vestfjörðum í apríl 2021 og óskuðu eftir því að málið yrði tekið upp á ný og tildög atviksins rannsökuð þar sem rannsókn málsins á sínum tíma hafi verið ábótavant. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafnaði þeirri beiðni á þeim forsendum að engin ný gögn hefðu borist. Ættingjar kærðu þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögregluna á Vestfjörðum að taka til skoðunar ákveðna þætti, s.s. ljósmyndir af bílflakinu sem teknar voru á sínum tíma af blaðaljósmyndurum.

Lögreglan á Vestfjörðum tók til rannsóknar þessa þætti sem og gerði kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að heimilað yrði að grafa upp líkamsleifar hins látna. Var það gert með vitund og samþykki ættingja. Líkamsleifarnar voru færðar til rannsóknar hjá réttarlækni sem hefur nú skilað lögreglu ítarlegri skýrslu um dánarorsök.

Með hliðsjón af niðurstöðu réttarlæknis og sömuleiðis öðrum þeim þáttum sem rannsakaðir voru hefur lögreglustjórinn á Vestfjörðum ákveðið að hætta rannsókn málsins. En niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekkert bendi til annars en að farþeginn hafi látist af afleiðingum umferðarslyss. Eins og ávallt er ákvörðun lögreglustjóra um lyktir mála kæranleg til ríkissaksóknara.

Nánustu ættingjum hins látna hefur verið kynnt niðurstaðan.

Lögreglan mun ekki fjalla frekar um mál þetta í fjölmiðlum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Leigu­bíl­stjórinn undrast upp­töku fimm­tíu ára gamals máls

Skýrslur voru ekki teknar af ökumanni og farþega í bíl, sem valt á Óshlíðarvegi árið 1973 með þeim afleiðingum að annar farþeginn lést, fyrr en tveimur og þremur mánuðum eftir slysið. Þetta kemur fram í gögnum lögreglu sem fréttastofa hefur undir höndum. Bílstjórinn segir það ekki standast, ekki hafi liðið nema nokkrir dagar þar til skýrsla hafi verið tekin af honum. 

Grófu upp líkamsleifar til að skoða fimmtíu ára mál

Líkamsleifar sem Lögreglan á Vestfjörðum gróf upp fyrir helgi eru af manni sem mun hafa farist í bílslysi á Óshlíðarvegi árið 1973. Hinn nítján ára gamli Kristinn Haukur Jóhannesson fannst látinn við bíl sem átti að hafa oltið niður af veginum en verið er að rannsaka hvort Kristinn hafi mögulega dáið með öðrum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×