Fótbolti

Sara Björk er leikfær og verður í byrjunarliðinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir verða saman á miðjunni í leiknum í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir verða saman á miðjunni í leiknum í kvöld. Vísir/Jónína

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur náð sér af veikindum sem hrjáðu hana og hún verður með íslenska liðinu í leiknum mikilvæga á móti Portúgal í dag en í boði er sæti á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.

Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir íslenska liðið enda væri ekki gott að fara í leikinn án síns öflugasta leikmanns.

Sara Björk missti af æfingunni og blaðamannafundinum í gær sem voru ekki góðar frétt daginn fyrir svo stóran leik en hún var í morgunmatnum á hótelinu í morgun og verður í byrjunarliðinu samkvæmt heimildum Vísis.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, mun aðeins gera eina breytingu á byrjunarliðinu frá því í leiknum á móti Hollandi, samkvæmt þeim upplýsingum sem Vísir hefur aflað sér.

Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður Rosenborg í Noregi, kemur inn fyrir Svövu Rós Guðmundsdóttur.

Leikurinn hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma og verður vel fylgst með honum hér inn á Vísi sem og ítarleg umfjöllun eftir að leik líkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×