Innlent

Ráðist á fjöl­skyldu­föður á meðan hann keypti mat

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt. 
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum málum í gærkvöldi og í nótt.  Vísir/Vilhelm

Um klukkan sjö í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um líkamsárás á veitingastað í Breiðholti. Þar hafði fjölskyldufaðir ætlað að kaupa mat handa sér og fjölskyldu sinni þegar maður í annarlegu ástandi réðst að honum án nokkurs tilefnis.

Í dagbók lögreglu segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Ekkert hafi verið skráð um áverka á fjölskylduföðurnum.

Í dagbókinni segir einnig að fjölmennasta árshátíð lögreglu sem haldin hefur verið hafi farið vel fram í gærkvöldi og verið hin besta skemmtun. Athygli vekur að dagbókarfærsla dagsins er rituð óvenjuseint, hvort það tengist gleðskap gærkvöldsins skal ósagt látið.

Nóg um að vera fyrir þau á vaktinni

Þeir lögregluþjónar sem ekki komust á árshátíðina vegna vinnu höfðu í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt.

Mikið var um umferðarslys og akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Þar ber hæst sextán ára ökumaður sem handtekinn var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Eðli málsins samkvæmt var hann einnig próflaus enda ekki kominn með aldur til að taka bílpróf.

Erilsamt í miðbænum

Svo virðist sem ekki hafi allir skemmt sér fallega í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um líkamsárás þar sem þolandi kvartaði vegna verks í höfði og var fluttur á bráðamóttöku. Árásarmenn voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Á sjötta tímanum í nótt var maður fluttur á bráðamóttöku með áverka í andliti eftir ítrekuð höfuðhögg. Árásarmaður var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá var tvennt handtekið vegna gruns um brot á lögreglusamþykkt. Annars vegar karlmaður sem ítrekað veittist að dyravörðum og truflaði störf þeirra. Hann var látinn laus að loknum viðræðum á lögreglustöð.

Hins vegar kona sem veittist að dyravörðum veitingastaðar og sparkaði í lögreglubifreið. Hún var sömuleiði látin laus að loknum viðræðum á lögreglustöð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.