Innlent

100 ára píanósnillingur á Hrafnistu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það fer vel um Ásdísi, 100 ára á Hrafnistu en hún er með píanóið sitt inn í herberginu sínu og spilar á það daglega.
Það fer vel um Ásdísi, 100 ára á Hrafnistu en hún er með píanóið sitt inn í herberginu sínu og spilar á það daglega. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ásdís Ríkharðsdóttir, 100 ára íbúi á Hrafnistu í Hafnarfirði lætur ekki deigan síga þrátt fyrir háan aldur, því hún spilar á píanó alla daga inn í herbergi hjá sér. Vinkona hennar kíkir í heimsókn í hverri viku en þá syngur hún og Ásdís spilar undir hjá henni.

Ásdís kenndi á píanó til margra ára og býr að því enn í dag.

„Ég byrjaði fyrst á orgel, ætli ég hafi ekki verið 12 ára. Svo fékk ég píanó ekki fyrr en ég varð 15 ára. Ég varð að fara út í bæ og æfa mig því hún Katrín Viðar gerði sig ekki ánægða með það að ég spilaði á orgel,“ segir Ásdís hlæjandi.

Ásdís kenndi svo á píanó á nokkrum stöðum á landinu og hún spilaði meira að segja undir í ballett í Svíþjóð um tíma.

„Ég fæ nú doða oft fram í fingurgóma, það er það sem spillir svolítið fyrir spilinu, mér finnst ég ekki fíla þetta nóg, ég fæ ekki næga tilfinningu fyrir honum,“ segir Ásdís aðspurð hvern hún sé í höndunum með allri þessari spilamennsku.

Svanhildur Sveinbjörnsdóttir söngkona hefur þekkt Ásdísi lengi og hún á ekki til orða að lýsa því hversu mikill snillingur hún er að spila verandi 100 ára gömul.

„Hún er bara meistari meistaranna, það er ekkert öðruvísi. Það er bara gaman að vinna með henni og hún er að segja mér meira að segja til þegar hún vill fá meiri fyllingu í tóninn og það er það sem er yndislegt og ég er fljót að breyta því,“ segir Svanhildur og hlær.

Ásdís og Svanhildur hittast reglulega á Hrafnistu, Svanhildur syngur og Ásdís spilar undir hjá henni.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×