Innlent

Segir trausta verk­ferla innan Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands

Árni Sæberg skrifar
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stöð 2

Framkvæmdastjóri Sinfóníu Íslands segir mjög trausta ferla og viðbragðsáætlanir vera innan Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fyrrverandi hljómsveitarstjóri segir stjórnendur ekkert hafa aðhafst þegar hann greindi frá kynferðisofbeldi af hálfu lykilmanns hjá Sinfóníunni.

Bjarni Frímann Bjarnason, fiðluleikari og hljómsveitarstjóri, greindi frá því í dag að Árni Heimir Ingólfsson, fyrrverandi tónlistarstjóri Sinfóníu Íslands, hefði brotið á honum kynferðislega þegar hann var sautján ára gamall og Árni Heimir 35 ára.

„Árni Heimir Ingólfsson braut á mér kynferðislega á heimili sínu þegar ég var nemandi hans í Listaháskóla Íslands. Ég var 17 ára, hann var 35 ára. Hann var til langs tíma tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og um leið formaður verkefnavalsnefndar hennar,“ segir í færslu Bjarna Frímanns á Facebook.

Í færslunni tíundar Bjarni Frímann það hvernig hann greindi stjórnendum Sinfóníunnar frá ofbeldinu sem hann hafði orðið fyrir af hálfu Árna Heimis. Hann segist fyrst hafa sagt þáverandi framkvæmdastjóra, Örnu Kristínu Einarsdóttur árið 2018 en hún ekkert aðhafst í málinu. Hann hafi því þurft að vinna áfram með Árna Heimi. 

Þá segir hann að hann hafi einnig greint Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, núverandi framkvæmdarstjóra, og Evu Ollikainen, núverandi aðalhljómsveitarstjóra, frá málinu um leið og þær hófu störf hjá SÍ. Þær hafi heldur ekkert aðhafst.

Lára Sóley segir í skriflegu svari við fyrirspurn Ríkisútvarpsins að Bjarni Frímann hafi ekki viljað fara lengra með málið á sínum tíma og því hafi hendur stjórnenda verið bundnar.

„Við erum með mjög trausta ferla og viðbragðsáætlan­ir inn­an hljóm­sveit­ar­inn­ar til að taka á mál­um sem þess­um, en ef þolandi vill ekki að farið sé lengra með málið þá get­ur það tak­markað mögu­leika sem við höf­um í stöðunni,“ hefur Rúv eftir Láru Sóleyju.

Hún segist þó telja að tilefni sé til að taka málið upp að nýju, nú þegar Bjarni Frímann hefur talað opinberlega um það.


Tengdar fréttir

Árni Heimir biðst af­sökunar á ó­sæmi­legri hegðun

Árni Heimir Ingólfsson, fyrrverandi tónslistarstjóri Sinfóníu Íslands segist hafa verið í mikill sjálfsvinnu undanfarin tvö ár og að hann biðji þá sem hann hefur hegðað sér ósæmilega gegn afsökunar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.