Innlent

Nafn föður ríkis­lög­reglu­stjóra kom upp við skýrslu­tökur

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. Vísir/Vilhelm

Sigríður Björk Guðjónsdóttir sagði sig frá rannsókn á hryðjuverkamálinu sem upp kom í síðustu viku vegna mögulegs vanhæfis. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það vegna þess að nafn föður hennar kom upp við skýrslutökur sakborninga hjá lögreglu.

Á upplýsingafundi lögreglunnar vegna málsins í dag kom fram að forræði á rannsókn málsins hafi verið fært frá ríkislögreglustjóra til Embættis héraðssaksóknara. Ástæðan var sögð upplýsingar um að einstaklingur tengdur ríkislögreglustjóra hafi verið nefndur í sambandi við málið. Í fréttinni hér að neðan má lesa ítarlega samantekt á því sem kom fram á fundinum.

Öruggar heimildir fréttastofu herma að einstaklingurinn sé Guðjón Valdimarsson, faðir Sigríðar Bjarkar ríkislögreglustjóra. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var haft eftir heimildarmönnum að húsleit hafi verið gerð á heimili Guðjóns í gær. Hann bæði safnar skotvopnum og selur þau á vefsíðunni Vopnasalinn. Svo virðist sem vefsíðan liggi niðri þessa stundina.

Á vefsíðunni má sjá mikinn fjölda skotvopna til sölu.Skjáskot

Nafn Guðjóns kom upp við skýrslutökur en lögreglan hefur ekkert gefið upp um það hvernig Guðjón tengist málinu, geri hann það yfir höfuð. Heimildir fréttastofu herma að Sigríður Björk hafi óskað eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja sig frá rannsókn málsins um leið og nafn föður hennar kom upp. Hún ræddi málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir viku síðan, áður en hún sagði sig frá rannsókn þess.

Í dag sendi hún svö tölvupóst á starfsfólk ríkislögreglustjóra þar sem hún greindi frá skipan mála. Póstinn má lesa hér að neðan:

Ágæta samstarfsfólk.

Ég vildi upplýsa ykkur um það að í fyrrakvöld óskaði ég eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja mig frá rannsókn máls er varðar ætlaðan undirbúning hryðjuverka. Ríkissaksóknari hefur fallist á þessa beiðni mína og flutt rannsóknarforræði málsins til embættis Héraðssaksóknara.

Þetta verður tilkynnt á upplýsingafundi lögreglu um málið nú kl. 15:03 en ástæða þessarar beiðni eru upplýsingar þess efnis að einstaklingur, sem tengdur er mér fjölskylduböndum, hefur verið nefndur í sambandi við málið. Ég óskaði eftir því að segja mig frá málinu um leið og þessar upplýsingar lágu fyrir til að tryggja rannsóknarhagsmuni og viðhalda trausti til rannsóknarinnar. Vanhæfið snýr aðeins að þessu máli en ekki öðrum verkefnum eða störfum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.