Fótbolti

Forseti PSG sagður eiga þátt í mannráni og pyntingum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Al-Khelaifi er borinn þungum sökum í franska dagblaðinu Libération.
Al-Khelaifi er borinn þungum sökum í franska dagblaðinu Libération. Antonio Borga/Eurasia Sport Images/Getty Images

Franska dagblaðið Libération greinir frá því í dag að hinn katarski Nasser Al-Khelaifi, forseti franska fótboltaliðsins Paris Saint-Germain, hafi átt þátt í mannráni franskalsírsks kaupsýslumanns. Sá á að hafa haft undir höndum gögn sem sýndu Al-Khelaifi ekki í góðu ljósi.

Alsírinn er kallaður Tayeb B. í greininni en hann er sagður hafa haft upplýsingar og sönnunargögn undir höndum sem kæmu sér illa fyrir Al-Khelaifi. Þær sýni að hann hafi átt þátt í því að spilla kosningum um mótshaldara HM 2022, sem FIFA kaus um árið 2010. Mótið fer fram í Katar en ítrekaðar ásakanir hafa komið fram frá því að kosningin fór fram að þar væri ekki allt með felldu.

Tayeb þessi var handtekinn í Katar þann 13. janúar 2020. Samkvæmt frétt Libération þurfti hann að dúsa í varðhaldi, sæta hótunum og ofbeldi í níu mánuði. Hann var í varðhaldi allt þar til hann féllst á að skila gögnunum til lögfræðinga Al-Khelaifis, og skrifa undir trúnaðarsamning.

Þá segir í greininni að handtaka Tayebs hafi eingöngu verið drifin áfram „vegna skipana emírsins í Katar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×