Lífið

Brad Pitt stígur inn í húð­vöru­bransann

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Merkið ber heitið Le Domaine.
Merkið ber heitið Le Domaine. Getty/Mondadori Portfolio

Brad Pitt hefur nú sett á flug sína eigin húðvörulínu en vörurnar segir hann henta öllum kynjum.

Húðvörulínan ber heitið Le Domaine og er Pitt meðeigandi línunnar með fjölskyldufyrirtækinu Perrin sem framleiðir lífrænt vín. CNN greinir frá þessu.

Markmið varanna sé að hægja á öldrun húðarinnar svo allir geti elst fallega óháð húðgerð eða kyni. Pitt er sagður vera á þeirri skoðun að samfélagið mætti taka öldrun með opnum örmum í auknum mæli.

Húðvörurnar séu 96 til 99 prósent náttúrulegar og vegan en hægt sé að fá áfyllingar í umbúðirnar. Ásamt því séu umbúðir varningsins að miklu leyti úr endurunnum efnum.

Vörurnar munu ekki vera í ódýrari kantinum en verðbilið sé frá 80 upp í 385 dollara eða frá 11.500 upp í 55.555 krónur. Það sem geri vörurnar sérstakar séu tvö einkaleyfisvarin innihaldsefni sem hjálpi meðal annars örveruflóru húðarinnar og vinni gegn kollagen missi.

Pitt er ekki fyrsta stjarnan til þess að láta húðvörur sig varða nú nýverið en fyrirsætan Hailey Bieber stofnaði sitt eigið húðvörumerki fyrir skömmu. Hún lenti þó í veseni vegna nafns fyrirtækisins, Rhode en var lögsótt af öðru fyrirtæki með sama nafn. 


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.