Innlent

Spé­hræddir ferða­menn reyna að komast undan því að baða sig

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í flestum tilvikum eru erlendum gestum kynntar reglurnar áður en þeir fara inn.
Í flestum tilvikum eru erlendum gestum kynntar reglurnar áður en þeir fara inn. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn sundlauga segja spéhræðslu valda því að fjöldi ferðamanna reynir að koma sér undan því að baða sig áður en farið er ofan í laugarnar. Frá þessu greinir Fréttablaðið og vísar til starfsmanna lauga í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum.

Engin viðurlög eru við því að fara óbaðaður ofan í en starfsfólk lauganna reyna eins og þeir geta að sporna við því.

„Þetta er vesen og hefur alltaf verið vesen,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir hjá Vök Baths í samtali við Fréttablaðið

Á Akureyri og Egilsstöðum eru allir erlendir gestir spurðir að því í afgreiðslunni hvort þeir hafi áður farið í sund og þeim kynntar reglurnar. Í Laugardalslaug fá þeir sem ekki hafa farið áður afhentan bækling þar sem reglurnar eru útlistaðar á ensku.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja það ekki áhyggjuefni þótt einhverjir sleppi óbaðaðir ofan í, þar sem klórmagn aukist eftir því sem óhreinindin aukast. Fólki sé bent á þetta þegar það neitar að baða sig; það er að segja að eftir því sem fleiri fari óbaðaðir ofan í, þeim mun meiri klór sé í vatninu.

Elín H. Gísladóttir hjá sundlaug Akureyrar segir þessu ólíkt farið eftir þjóðernum en í flestum tilvikum sé það spéhræðslan sem verður til þess að fólk veigrar sér við því að baða sig nakið. Þá geti það hins vegar notað klefa þar sem hægt er að draga fyrir og baða sig í næði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×