Innlent

Ragnar Arnalds fyrrverandi ráðherra er látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra, er látinn 84 ára að aldri. 
Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra, er látinn 84 ára að aldri. 

Ragnar Arnalds fyrrverandi ráðherra er látinn 84 ára að aldri. Ragnar var formaður Alþýðubandalagsins í tæpan áratug og var Alþingismaður í tæpa þrjá áratugi. 

Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í morgun þar sem fram kemur að Ragnar fæddist í Reykjavík 8. júlí 1938. Foreldrar hans voru Sigurður Arnalds, útgefandi og stórkaupmaður og Guðrún Jónsdóttir Laxdal kaupkona. 

Ragnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1958 og stundaði nám í bókmenntum og heimspeki við sænska háskóla á árunum 1959 til 1961 áður en hann sneri aftur heim og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1968. 

Ragnar kenndi við Gagnfræðiskólann í Flensborg í Hafnarfirði árin 1958 til 159, Gagnfræðiskóla Vesturbæjar í Reykjavík árin 1967 til 1969 og við Gagnfræðiskólann við Laugalæk árin 1969 til 1970 en haustið 1970 var hann settur skólastjóri við barna- og unglingskólann í Varmahlíð í Skagafirði þar sem hann starfaði til ársins 1972. 

Ragnar var landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðubandalagið á Norðurlandi vestra  frá árinu 1963 til 1967 og sat sem alþingismaður frá 1971 til 1999. Hann var þá menntamála- og samgönguráðherra frá 1978 til 1979 og fjármálaráðherra frá 1980 til 1983. Hann varð þá fyrsti varaforseti Alþingis 1995 til 1999. 

Ragnar var þá virkur í menningarmálum en hann var ritstjóri Frjálsrar þjóðar árið 1960, Dagfara frá 1961 til 1962 og Nýrrar útsýnar árið 1969. Þá samdi Ragnar leikrit, meðal annars Uppreisn á Ísafirði sem Þjóðleikhúsið sýndi árið 1986 og Sveitasinfóníu sem Leikfélag Reykjavíkur setti upp árið 1988. Auk þess skrifaði hann skáldsögurnar Eldhuginn - sagan um Jörund, Drottning rís upp frá dauðum og Keisarakokteilinn, sem komu út á milli 2005 og 2018. 

Auk þess skrifaði Ragnar tvær æviminningabækur, Æskubrek á atómöld og Gandreið á geimöld sem komu út 2017 og 2018. Ragnar lætur eftir sig eiginkonu sína, Hallveigu Thorlacius brúðuleikara, og dæturnar Guðrúnu og Helgu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×