Innlent

Sérsveitin varar við sprengjufikti: „Það hafa orðið banaslys“

Sunna Sæmundsdóttir og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Sérsveitarmaður sem var á vettvangi á Selfossi í morgun segir stranglega bannað og stórhættilegt að fikta með sprengiefni.
Sérsveitarmaður sem var á vettvangi á Selfossi í morgun segir stranglega bannað og stórhættilegt að fikta með sprengiefni. vísir/Magnús Hlynur

Sérsveitarmaður sem var á vettvangi á Selfossi í morgun ítrekar varnaðarorð lögreglu um alvarleika þess að meðhöndla sprengiefni. „Það hafa orðið banaslys á Íslandi við sprengjufikt, útlimamissir einnig og fólk hefur misst sjón. Þannig þetta er alveg stranglega bannað,“ segir sérsveitarmaður sem var kallaður á vettvang þegar tilkynnt var um torkennilegan hlut nærri Fjölbrautarskóla Suðurlands og Vallaskóla.

Hluturinn reyndist heimatilbúin sprengja sem svipar til annarra sem hafa sem hafa fundist á Selfossi undanfarið og sprengjusérfræðingar sinntu sams konar útkalli í bæjarfélaginu fyrr í vikunni. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Oddur Árnason yfirlögregluþjónn að börn og ungmenni í sveitarfélaginu hafi verið að útbúa öflugar sprengjur og biðlaði til foreldra að ræða við börn um hætturnar af athæfi sem þessu. Sérsveitin tekur undir þessi varnaðarorð.

Viðbúnaðurinn var mikill í morgun þar sem sprengjan var við fjölmenn gatnamót við Engjaveg og Tryggvagötu. Svæðið var girt af, dróni notaður til að kanna hlutinn og vélmenni til að eyða sprengjunni.

„Hér var tilkynnt um grunsamlega flösku í framhaldi af þessun málum sem hafa verið að koma upp undanfarna daga þannig að lögreglan lokaði svæðinu af í kringum flöskuna. Hún bar grunsamleg einkenni þannig við eyddum henni samkvæmt hefðbundnum starfsaðferðum,“ segir sérsveitarmaður um aðgerðina.

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins samkvæmt upplýsingum fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×