Innlent

Heilsugæslan hvetur fólk til að æla heima: „Þetta er að gefnu tilefni“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Heilsugæslan biðlar til landsmanna að æla heima og bendir réttilega á að það sé hvimleitt að fá niðurgang í bílnum í nýrri auglýsingaherferð. En hvers vegna þykja þessi skilaboð nauðsynleg?

Í sjónvarpsfréttinni hér að ofan má sjá nýja auglýsingaherferð heilsugæslunnar þar sem landsmönnum er bent á að best sé að æla heima hjá sér.

Forsvarsmenn heilsugæslunnar segja að auglýsingaherferðinni sé hrint af stað að gefnu tilefni því mikið sé um að fólk komi á heilsugæslustöðvar með hefðbundnar umgangspestir eins og ælupest.

„Já það er ótrúlegt hvað fólk kemur hingað með og þess vegna fórum við af stað með þessa auglýsingaherferð, þetta er að gefnu tilefni sem við viljum koma þessum skilaboðum á framfæri,“ sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Sigríður Dóra hvetur fólk til að vera heima ef það er með hefðbundna umgangspest. Auglýsingaherferðinni er ætlað að efla heilsulæsi fólks. arnar halldórsson

Að gefnu tilefni og sér í lagi vegna þess að álag á heilsugæslustöðvar er mikið og lítið sem læknar geta gert við almennum umgangspestum sem ganga yfir á nokkrum dögum.

„Við erum að vísa þarna á heilsuveru. Það er upplýsingamiðstöðin, netspjall heilsuveru þar sem fólk getur fengið almennar ráðleggingar og bara hugsa sig sjálft fram til hvað sé besta lausnin. Vera ekki að koma til okkar nema það sé eitthvað sem hægt er að gera í málinu annað en bara almenn skynsemi.“

Margir lesendur taka eflaust undir þessi skilaboð frá heilsugæslunni.vísir

Já og svo bendir heilsugæslan réttilega á að það sé ekkert spes að fá niðurgang í bílinn og því best að vera bara heima.

Heima er pest, hvað finnst þér um þetta slagorð? 

„Mér finnst þetta algjör snilld og segir allt sem við vildum segja. Þú ert best geymdur heima ef þú ert með pest.“

Heima er best, ef þú ert með pest.vísir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×