Innlent

Magnús Norðdahl er látinn

Árni Sæberg skrifar
Magnús Norðdahl var frumkvöðull í listflugi á Íslandi.
Magnús Norðdahl var frumkvöðull í listflugi á Íslandi. Pétur P. Johnson

Magnús Norðdahl, flugstjóri og fimmfaldur Íslandsmeistari í listflugi lést á heimili sínu á fimmtudaginn, 94 ára að aldri.

Í fréttatilkynningu frá fjölskyldu Magnúsar segir að hann hafi fæðst þann 20. febrúar árið 1928 þeim Guðmundi Nordahl trésmiði og Guðrúnu Pálsdóttur húsmóður.

Hann hafi farið í sitt fyrsta flug árið 1944 á svifflugu með útsýni yfir Esjuna og tekið sína fyrstu flugtíma á Stearman og blindflugsáritun frá breska flughernum á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1946 hafi hann farið í flugnám til Englands, með togara, og útskrifast þaðan sumarið 1947.

Magnús hóf störf hjá Loftleiðum til reynslu sumarið 1947, en fékk síðan fastráðningu 1. júní 1948 og starfaði hjá Loftleiðum í yfir 39 ár, eða til febrúar 1991. Magnús starfaði einnig í skamman tíma fyrir BOAC (British Overseas Airways Corporation), sem var hluti af British Airways í miðausturlöndum, þegar flugrekstur á Íslandi gekk ekki sem skyldi.

Frumkvöðull í listflugi

„Óhætt er að segja að hann hafi verið frumkvöðull í listflugi á Íslandi og var hann öðrum flugmönnum hvatning til að stunda listflug og alltaf tilbúinn að miðla af reynslu sinni og kunnáttu sem hann bjó yfir í miklu mæli. Hann keppti oft í listflugi og varð Íslandsmeistari fimm sinnum, fyrst árið 1996 og síðast árið 2001. Sýndi hann oft listflug á flugdeginum á Reykjavíkurflugvelli og síðast árið 2017 þegar hann var 89 ára gamall. Hann flaug listflug til ársins 2020 þegar hann var orðinn 92 ára gamall. Flugið var hans eina áhugamál því í flugvél var hann frjáls eins og fuglinn eins og var svo oft haft eftir honum,“ segir í tilkynningunni.

Eiginkona Magnúar var María Sigurðardóttir Norðdahl heildsali en hún lést árið 2017. Börn Magnúsar eru Sigurður, Guðrún, Guðmundur, Magnús Steinarr og Jóna María, og eru barnabörn tíu, og barnabarnabörnin átta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×