Innlent

Köfunarþjónusta byggist upp til að þjóna fiskeldi á Austfjörðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samúel Karl Sigurðsson á Reyðarfirði er framkvæmdastjóri K-Tech köfunarþjónustu.
Samúel Karl Sigurðsson á Reyðarfirði er framkvæmdastjóri K-Tech köfunarþjónustu. Sigurjón Ólason

Sérhæft köfunarfyrirtæki með fjórum atvinnuköfurum er orðið til á Austfjörðum. Helstu verkefni eru í kringum fiskeldi auk almennrar þjónustu við útgerðir fiskiskipa.

Langt er síðan hefðbundinni útgerð var að mestu hætt frá Reyðarfirði. Í fréttum Stöðvar 2 kynnumst við annarskonar starfsemi sem komin er við höfnina. Þar má sjá Samúel Karl Sigurðsson á leið með köfunargræjur um borð í annan af tveimur bátum köfunarþjónustunnar K-Tech, sem stofnuð var árið 2017.

„Við stofnum þetta í raun og veru hérna í upphafi þegar fiskeldið er að ryðja sér til rúms. Þá vantar hérna þessa þjónustu,“ segir Samúel en hann stofnaði fyrirtækið ásamt tveimur Skotum sem voru fyrir austan.

„Svo fóru þeir nú út úr þessu. Þannig að við erum með þetta, við hjónin, ásamt öðrum.“

Samúel með kafarabúning á leið um borð í annan af tveimur bátum fyrirtækisins.Sigurjón Ólason

Samúel áætlar að sjötíu prósent verkefna kafaranna séu fyrir fiskeldið á Austfjörðum. Einnig sinni þeir hefðbundnum útgerðum og segir hann annir geta verið á loðnuvertíð.

„Við höfum verið að þjónusta fiskeldið fyrst og fremst. Svo er þetta í raun og veru í fyrsta skipti sem þessi þjónusta er fyrir hendi fyrir austan. Þannig að við erum farin að þjónusta sjávarútvegsfyrirtækin og það var töluvert að gera hjá okkur þegar norsku bátarnir voru hérna í vor. Þannig að það fellur alltaf eitthvað til.“

Fyrir fiskeldið snúast verkefnin einkum um eftirlit með sjókvíum.

„Við þurfum að fara í kvíarnar á þrjátíu daga fresti, allar kvíar. Svo náttúrlega eru menn að fá í skrúfuna.

Svo eru að aukast bara verkefni fyrir útgerðina. Við erum að botnþrífa skip og báta. Laga lagnir, sjóinntök og annað slíkt.“

Samúel segir að áður hafi þetta verið mest einyrkjar sem sinntu köfun á Austfjörðum. K-Tech sé fyrsta eiginlega köfunarfyrirtæki fjórðungsins. Auk hans séu þrír aðrir starfsmenn, allt árið um kring.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Smíðar sjókvíar og báta á Djúpavogi fyrir fiskeldi

Bátasmiðja á Djúpavogi smíðar sjókvíar og báta fyrir fiskeldi. Framkvæmdastjórinn segir marga ekki átta sig á hve sprotar geta farið víða og hve störfin eru orðin mörg sem tengjast fiskeldinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.