Innlent

Brutu jafn­réttis­lög þegar konu var sagt upp vegna kyn­­ferðis­­legra til­­burða

Eiður Þór Árnason skrifar
Kærunefndin taldi Strætó ekki hafa náð að sýna fram á að uppsögnin hafi verið framkvæmt með lögmætum hætti.
Kærunefndin taldi Strætó ekki hafa náð að sýna fram á að uppsögnin hafi verið framkvæmt með lögmætum hætti. Vísir/Vilhelm

Strætó bs. braut gegn jafnréttislögum þegar stjórnendur sögðu konu upp störfum eftir að kvartað var yfir óviðeigandi skilaboðum hennar til samstarfsmanns. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála en fjallað er um málið í nýrri ársskýrslu nefndarinnar.

Fyrrverandi starfsmaður Strætó kærði starfslokin til kærunefndarinnar í september 2021 og hélt því fram að fyrirtækið hefði sagt henni upp með ólögmætum hætti með því að þvinga hana til að gera starfslokasamkomulag. Með því hafi henni verið mismunað á grundvelli kyns, aldurs og þjóðernisuppruna.

Fram kemur í ársskýrslu kærunefndar jafnréttismála að til grundvallar starfslokasamkomulaginu hafi legið kvörtun samstarfsmanns konunnar yfir óviðeigandi skilaboðum sem hún hafi sent honum. Leit Strætó svo á að konan hafi haft uppi kynferðislega tilburði og þar með gerst sek um brot á starfsskyldum sínum.

Litið til aldurs hennar

Að sögn kærunefndarinnar fór Strætó ekki að reglum við starfslok kæranda og var samstarfsmaðurinn karl í stjórnunarstöðu sem var töluvert yngri en konan. Litið hafi verið til aldurs hennar við ákvörðun um starfslokin og skilaboðin ekki rannsökuð sérstaklega með tilliti til málskilnings hennar þar sem hún væri að öðrum þjóðernisuppruna en samstarfsmaðurinn.

Í ljósi þessa var það mat kærunefndarinnar að konan hefði leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kyns, aldurs eða þjóðernisuppruna hafi átt sér stað við starfslokin, sem feli í sér brot á ákvæðum laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

„Þá var ekki hjá því komist að telja að [Strætó] bs. hefði ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn, aldur eða þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, [samanber] sömu lagaákvæði,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×