Innlent

Land­­spítalinn ekki á leið í þrot í dag eða á morgun

Árni Sæberg og Snorri Másson skrifa

Heilbrigðisráðherra neitar því ekki að aukið fjármagn þurfi inn í heilbrigðiskerfið en segir Landspítalann ekki á leið í þrot. 

Forstjóri spítalans hefur hins vegar sagt hann stefna í þá átt, ef ekki verður brugðist við álagi. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir mönnun mikinn vanda og að eftirspurnin muni bara aukast, þannig að stjórnvöld eigi margþætt verkefni fyrir höndum.

„Þetta er bara mjög mikið verkefni að manna heilbrigðiskerfið til framtíðar. Það er búið að vera mikið álag og fólk finnur fyrir því,“ segir Willum Þór í samtali við fréttastofu. 

Hafnar þú því þá að það sé nauðsynlegt að spýta inn auknu fé í heilbrigðiskerfið? 

„Ég hafna því ekki neitt, það eru auðvitað þessi tvö blikkandi ljós, að fjármagna heilbrigðiskerfið og manna það. Það er risaverkefni, það blasir við og það eru mjög mikil verkefni fram undan. Hins vegar er spítalinn ekkert á leiðinni í þrot,“ segir Willum Þór.

Þrot blasi við að óbreyttu

Runólfur Pálsson, forstjóri spítalans, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á dögunum að mannekla væri mest á meðal hjúkrunarfræðinga en einnig á meðal lækna. Hann sagði að fjölga yrði nemendum í geirunum hér heima og fara nýjar leiðir, á borð við að nýta hermikennslu til að þjálfa færni.

„Niðurstaðan er einfaldlega sú að við munum fara í þrot með þennan mannafla ef við finnum ekki lausnir,“ sagði Runólfur sem tók við starfi forstjóra í febrúar á þessu ári eftir átta ára setu Páls Matthíassonar í embætti.


Tengdar fréttir

Segir þrot að óbreyttu blasa við Landspítalanum

Forstjóri Landspítalans segir að Landspítalinn fari í þrot verði ekki brugðist við mannekluvandamálum spítalans. Staðan hafi aldrei verið jafnþung og í sumar þegar hleypa þurfti starfsfólki í langþráð frí eftir heimsfaraldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×