Innlent

Björgunar­sveitar­menn fái illt í hjartað þegar börn eru dregin að gosinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Steinar Þór Kristinsson er í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar í Grindavík.
Steinar Þór Kristinsson er í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar í Grindavík. Arnar Halldórsson

Svæðið við gosstöðvarnar verður áfram lokað í dag vegna veðuraðstæðna. Vegna lokunar verður tækifærið nýtt og gönguleið að gosstöðvunum lagfærð til að auðvelda aðkomu að þeim. 

Svæðið við gosstöðvarnar hefur verið lokað síðan klukkan 5 í gærmorgun vegna veðurs og tekin var ákvörðun um að framlengja lokuninni þar til í fyrramálið.

Unnið verður að því að bæta aðgengi upp að gosstöðvunum í dag en á meðan verður björgunarsveitarfólk í hvíld eftir margra daga törn.

„Það var ákveðið að nota tækifærið fyrst það er lokað vegna veðurs og reyna að laga gönguleiðina þarna áfram upp,“ segir Steinar Þór Kristinsson björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni í Grindavík og fulltrúi í svæðisstjórn. 

„Það er mjög erfitt aðgengi fyrir okkur þarna upp á fjallið og það er eiginlega mjög illfært og erfitt við að eiga. Það tekur mikinn tíma og er mikil áníðsla á tækjum.“

Nokkur fjöldi ferðamanna, aðallega erlendra, lagði leið sína að gosstöðvunum í gær þrátt fyrir lokanir en var snúið við af björgunarsveitarfólki.

„Einhverjir virðast hafa farið einhvers staðar fram hjá og sloppið í gegn en það er alveg sáralítil umferð,“ segir Steinar.

Veðrið uppi á fjallinu sé vont og von á enn verra veðri þegar líður á daginn.

„Það er bara frekar skítt þarna uppi skilst mér núna og getur verið að aðeins dúri en það er bara svo stuttur tími og svo verður mikið slagveður og læti með kvöldinu og í nótt.“

Fólk fari enn með börn upp að gosstöðvunum þrátt fyrir aðvaranir.

„Stundum fær maður hálfillt í hjartað þegar maður sér þetta fólk koma niður og börnin hálfpartinn dregin áfram vegna þess að þau eru alveg uppgefin eftir þetta,“ segir Steinar. 


Tengdar fréttir

Ekki úti­lokað að fleiri skjálftar verði

Jarðeðlisfræðingur segir ekki útilokað að fleiri skjálftar, svipaðir þeim sem reið yfir í dag, verði á næstunni þó að spenna hafi að miklu leyti losnað á svæðinu.

Ung börn ör­mögnuðust á leiðinni frá gos­stöðvunum

Erlendir ferðamenn fóru með tvö ung börn sín upp að gosstöðvunum í Meradölum í gærkvöldi. Á leiðinni niður örmögnuðust börnin í slæmum veðuraðstæðum. Leiðsögumaður sem var á svæðinu segir „firringu“ hafa átt sér stað í gærkvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×