Nafni hópsins, sem áður kallaðist „Fávitavarpið í Geldingadölum“, hefur verið breytt til þess að endurspegla staðsetningu nýja eldgossins, sem hófst um miðjan dag í gær. Breytingin er einföld og nýja nafnið er einfaldlega „Fávitavarpið í Meradölum.“
Lýsing hópsins fangar nokkuð vel tilgang hans, og stemninguna sem ríkti innan hans meðan á eldgosi síðasta árs stóð:
„Hér söfnum við inn skjáskotum af fávitunum sem halda að slow TV sé þáttur um slow people eins og það sjálft. Endilega skellið inn skjáskotum af fólki sem er að skemma útsendinguna frá eldgosinu með sínum beljusmettum.“
Hópurinn hefur ekki verið sérlega virkur frá því eldgosi síðasta árs lauk en meðlimir hópsins eru nú teknir við sér og umræður hafnar um ferðamenn sem troða sér inn í útsendingar. Eðli málsins samkvæmt skyggja þeir á gosið sem myndavélunum er ætlað að miðla til þeirra sem heima sitja, meðlimum hópsins til nokkurrar óánægju.
Fjöldi fólks hefur þegar lagt leið sína að nýja gosinu og líklegt má telja að skjáskotum í hópnum fjölgi á næstunni, eftir því sem fleiri ferðamenn verða myndavélanna áskynja og freista þess að komast í mynd, og þar með inn í stofu hjá stórum hluta landsmanna.