Innlent

Al­ger­lega á­fengis- og vímu­efna­laus úti­há­tíð um verslunar­manna­helgi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hátiðin fer fram á Skógum á Suðurlandi.
Hátiðin fer fram á Skógum á Suðurlandi. Aðsend

SÁÁ hefur blásið til fjölskylduhátíðar á Skógum um verslunarmannahelgi. Hátíðin er frábrugðin flestum öðrum þeim sem fram fara um helgina, enda verður áfengi ekki haft um hönd. Skipuleggjandi á von á því að allt að þúsund manns taki þátt í gleðinni.

Margir sem sækja hátíðir víða um land um Verslunarmannahelgina gera það með áfengi við hönd, og sumir jafnvel með aðra vímugjafa. Slíkt verður hins vegar ekki í boði á fjölskylduhátíðinni Skógum sem SÁÁ stendur að. Eins og nafn hátíðarinnar gefur til kynna verður hátíðin haldin á Skógum á Suðurlandi.

Skipuleggjendur búast við um sjöhundruðogfimmtíu til þúsund manns yfir helgina og telja Skóga tilvalinn stað fyrir hátíð sem þessa.

„Þetta er alveg stórkostlegt svæði og svona margt hægt að gera þarna í kring, þannig að okkur fannst tilvalið að halda hátíðina okkar þarna,“ segir Stefán Pálsson hjá SÁÁ, en hann er einn þeirra sem fer með skipulagningu hátíðarinnar.

„Síðan erum við náttúrulega með dagskrá alla dagana, föstudag laugardag og sunnudag. Það er bæði yfir kvöldið og daginn. Þannig að við erum bara full tillökkunar.“

Stefán Pálsson hjá SÁÁ er á meðal þeirra sem skipuleggja fjölskylduhátíðina Skóga.Aðsend

Líkt og áður sagði verða engir vímugjafar leyfðir á hátíðinni.

„Það er skilyrði að það sé ekki með. Við viljum bara skemmta okkur án áfengis og vímuefna, og það er alveg hægt. Það er skilyrði fyrir því, það verður ekki áfengi eða vímuefni á svæðinu.“

SÁÁ hefur áður haldið hátíðir um verslunarmannahelgi, síðast fyrir tólf árum.

„Þannig að við erum kannski að starta þessu eftir dálítið hlé og rennum kannski blint í sjóinn með mætingu. En það hafa verið góð viðbrögð við þessu og mikið um fyrirspurnir. Það verður bara spennandi að sjá hvort landinn taki þessu ekki vel,“ segir Stefán.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×