Innlent

Gleðin alls­ráðandi í Ólafs­vík

Bjarki Sigurðsson og Óttar Kolbeinsson Proppé skrifa
Frá vinstri: Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, Agatha P. og Bjargey Anna Guðbrandsdóttir.
Frá vinstri: Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, Agatha P. og Bjargey Anna Guðbrandsdóttir. Vísir

Gleðin var allsráðandi á Hinseginhátíð Vesturlands sem fór fram í Ólafsvík í dag. Þar var að sjálfsögðu gengin gleðiganga líkt og tíðkast á sambærilegri hátíð sem haldin er í Reykjavík ár hvert.

Skipuleggjendur hátíðarinnar reikna með að um þúsund manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum í dag. Lest vel skreyttra pallbíla, vagna, hjóla og gangandi fólks hélt í gegnum bæinn að sviði í Sjómannagarðinum í Ólafsvík þar sem ýmis atriði voru í boði. Dragdrottningin Agatha P. stal þó senunni með dansi og söng við fagnaðarlæti hátíðargesta.

„Við byrjuðum hérna með gönguna hérna í Ólafsvík klukkan tvö og það var bara gengið fylktu liði, stórir vagnar, litlir vagnar og meira að segja fjórhjól, gangandi fólk og rosa stemmning.

Búin að vera frábær stemmning hérna í allan dag. Það er sól, það er yndislegt veður, bara gleði og það blakta fánar hérna bara í hverjum garði nánast,“ sagði Bjargey Anna Guðbrandsdóttir, framkvæmdastýra hátíðarinnar, þegar fréttastofa náði tali af henni á hátíðinni í dag.

Það hefur ekki einungis verið glampandi sól og rífandi stemning á Ólafsvík um helgina, heldur öllu Snæfellsnesinu. Tjaldsvæðið í Stykkishólmi fylltist í gær af vongóðum ferðamönnum sem vildu ná að njóta helgarinnar í góða veðrinu.

Þá hefur fréttastofu borist ábendingar um að flestöll tjaldsvæði Snæfellsnessins séu full.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×