Innlent

Út að borða vopnaður sveðju og klæddur stunguvesti

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan stóð í ýmsu í gærkvöldi, þar á meðal þurfti að hafa afskipti af tveimur vopnuðum mönnum.
Lögreglan stóð í ýmsu í gærkvöldi, þar á meðal þurfti að hafa afskipti af tveimur vopnuðum mönnum. Vísir/Kolbeinn Tumi

Nokkur erill var hjá lögreglunni í gærkvöldi samkvæmt dagbók lögreglunnar. Meðal annars þurfti að hafa afskipti af tveimur vopnuðum mönnum, nokkrir voru stöðvaðir vegna hraðaksturs og nokkrir voru handteknir vegna líkamsárása.

Rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi þurfti lögregla að hafa afskipti af manni í Hlíðum sem var grunaður um brot á vopnalögum. Samkvæmt dagbók lögreglu var lagt hald á rafstuðkylfu mannsins og tekin skýrsla.

Tæpum þremur tímum síðar þurfti lögreglan að hafa afskipti af manni á veitingastað í Miðborginni sem var klæddur í stunguvesti og vopnaður sveðju. Maðurinn var handtekinn og kærður fyrir brot á vopnalögum en var síðan látinn laus. Lögreglan lagði bæði hald á stunguvestið og hnífinn.

Í hverfi 201 í Kópavoginum var tilkynnt um þjófnað á rútufelgum og dekkjum en sá sem tilkynnti glæpinn sá þjófinn aka af vettvangi. Samkvæmt dagbók lögreglu er málið í rannsókn.

Nokkrir handteknir vegna líkamsárása

Laust fyrir fimm í morgun var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Miðborginni grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Um svipað leyti í morgun voru tveir menn í annarlegu ástandi handteknir vegna gruns um líkamsárásir í miðborginni. Mennirnir voru báðir vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar lögreglu. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ekki sé búið að bóka upplýsingar varðandi árásarþola.

Margir að keyra of hratt og einhverjir ölvaðir

Nokkrar bifreiðar voru stöðvaðir í Grafarvogi vegna gruns um ölvun ökumanns. Þar af hafði einn farið á 114 kílómetra hraða þar sem 80 kílómetra hámarkshraði gilti. Samkvæmt dagbók lögreglu var sá grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án ökuréttinda.

Á Vesturlandsvegi voru fjórar bifreiðar stöðvarðar eftir hraðamælinu en allir fjórir ökumannanna fóru meira en 30 kílómetrum á klukkustund fram úr hámarkshraða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×