Innlent

Með nóg á prjónunum en ein­beitir sér að sjó­böðunum í bili

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skúli Mogensen er stofnandi sjóbaðanna í Hvammsvík í Hvalfirði, sem opnuðu formlega í dag.
Skúli Mogensen er stofnandi sjóbaðanna í Hvammsvík í Hvalfirði, sem opnuðu formlega í dag. Samsett

Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði voru formlega opnuð í dag en böðin eru byggð í kringum gömlu náttúrulaugina í fjöruborðinu í Hvammsvík og samanstanda af átta misheitum laugum.

Sjóböðin nýju eru hugarfóstur athafnamannsins Skúla Mogensen, sem stofnaði fyrirtækið og hefur unnið að opnun baðanna ásamt fjölskyldu sinni. Hvammsvíkurböðin eru aðeins fyrir tólf ára og eldri - og ekki er hægt að njóta baðanna nema bóka aðgang fyrirfram á netinu.

„Þessi hugmynd kviknaði fyrir alllöngu síðan, hér í gömlu lauginni sem er orðin tíu ára gömul. Við erum búin að rölta um svæðið endalaust og njóta verunnar hér, því það er alltaf gott veður í heitri laug,“ segir Skúli Mogensen, inntur eftir því hvernig hugmyndin að sjóböðunum hafi kviknað.

Sýnt var frá opnunardegi sjóbaðanna í kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag.

Baðlón, sjóböð og heitar laugar hafa sprottið upp eins og gorkúlur á landinu síðustu ár. Skúli segir böðin í Hvammsvík þó hafa ákveðna sérstöðu.

„Við höfum staðinn viljandi töluvert minni heldur en gengur og gerist og leyfum náttúrunni þannig að njóta sín og gestir fá kannski meira næði,“ segir Skúli.

Hvammsvíkurböðin verða opin daglega frá klukkan 11-22. Aðgangur í böðin kostar á bilinu 6.900-7.900 krónur en verð er breytilegt eftir tíma dags sem pantað er og vikudegi. Skúli segir bókanir hafa farið virkilega vel af stað og stöðugur straumur gesta hafi verið í böðin í allan dag. Inntur eftir því hvort hann sé með fleiri verkefni á prjónunum segir hann nóg framundan.

„En við ætlum nú að einbeita okkur að sjóböðunum og Hvammsvíkinni og halda áfram þeirri miklu uppbyggingu sem hér er hafin og vonandi fær fólk að njóta þess áfram,“ segir Skúli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×