Innlent

Gekk um vopnaður og tók í hurðar­húninn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Líkt og sést á skjáskotinu heldur maðurinn á hníf.
Líkt og sést á skjáskotinu heldur maðurinn á hníf. Skjáskot

Íbúi á Flötunum í Garðabæ varð fyrir þeirri óþægilegu reynslu að vopnaður maður tók í útidyrahurðina á heimili hans á laugardagsmorgun. Myndband úr dyrabjöllu hússins sýnir manninn nálgast húsið með hníf í hendi, taka í hurðarhúninn og halda svo sína leið.

Gunnsteinn Geirsson deildi myndbandi af atvikinu í Facebook-hópi Garðbæinga, til þess að vara við manninum, sem hélt bol sínum fyrir neðri hluta andlits síns. Ætla má að það hafi verið til að þekkjast síður á myndum eða upptöku.

Í samtali við Vísi segir Gunnsteinn að óþægilegt hafi verið að sjá upptökuna. Hann hafi ekki verið vakandi þegar atvikið átti sér stað um klukkan sjö á laugardagsmorgun.

„Kannski sem betur fer, þá hefði maður örugglega hlaupið í fangið á honum. Þetta er vel óþægilegt að sjá svona fyrir utan hjá sér. Maður hefur alveg lent í því að gleyma að læsa útidyrahurðinni áður en maður fer að sofa,“ segir Gunnsteinn. Hann segir ljóst að því gleymi hann ekki aftur í bráð.

„Það verður gengið á allar hurðar fyrir svefninn.“

Lögreglan komin í málið

Gunnsteinn hefur þegar tilkynnt málið til lögreglu. Þá segist hann hafa fengið ábendingu um hver gæti hafa verið að verki, en ekki sést greinilega í andlit mannsins á myndbandinu sem Gunnsteinn birti.

„Ég er búinn að koma því öllu til lögreglunnar. Ég talaði við einn hjá þeim í dag og þeir ætluðu að skoða þetta eitthvað. Það er bara vonandi að fólk sjái þetta og passi sig,“ segir Gunnsteinn.

Myndbandið úr dyrabjöllu Gunnsteins má sjá í spilaranum hér að ofan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.