Innlent

Ás­laug Arna segir gagnrýni mál­­fræðings „dæmi­­gert kerfis­svar“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ríkisráðsfundur á Bessastöðum
Ríkisráðsfundur á Bessastöðum Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskólamálaráðherra, gefur lítið fyrir gagnrýni á starfsauglýsingu ráðuneytis síns þar sem íslenskukunnátta var ekki skilyrði. Íslenskuprófessor telur auglýsinguna brjóta í bága við lög. Ráðherra segir á Facebook að hún ætli að kanna betur hvort auglýsingin brjóti í bága við lög en hún sé „eðlilegt skref í takt við tímann“

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið birti starfsauglýsingu fyrir starf talnaspekings á vef sínum síðasta mánudag þar sem íslenskukunnátta var ekki skilyrði fyrir starfinu. 

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, gagnrýndi auglýsinguna í gær og sagðist efast um að hún stæðist lög um íslenska tungu og táknmál.

Kallar gagnrýni „dæmigert kerfissvar“ 

Áslaug Arna hefur nú svarað Eiríki og segir gagnrýni hans dæmi um „dæmigert kerfissvar“ sem snúi ekki að því hvernig eigi að stjórna eða hafa lög og reglur heldur sé dæmi um íhaldssemi.

Ennfremur segir hún í færslunni að hún telji „óþarfa að útiloka þá sem ekki tala fullkomna íslensku frá störfum sem þessum þar sem unnið er með tölur en ekki tungumálið.“  

Hér á landi séu yfir 50.000 erlendir ríkisborgarar og það hljóti að vera óhætt og eðlilegt skref að þau hafi aðgang að störfum hjá hinu opinbera þar sem hægt er að koma því við.

Hún segist vissulega ætla að kanna betur hvort auglýsingin standist ekki lög. Reynist það svo að auglýsingin standist ekki lög telur hún að „krafan um íslensku sé tekin lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af meðalhófi og jafnræði.“

Að lokum segir hún að samkeppnishæfni Íslands sem þjóðar skipti öllu máli og að þjóðin virki allan mannauð samfélagsins og hreyfist í takt við tímann. „Þær áskoranir eiga alveg samleið með að varðveita fallega tungumálið okkar, íslenskuna.“


Tengdar fréttir

Sér ekkert athugavert við smá ensku í ráðuneytinu

Ný­sköpunar­ráð­herra hefur aug­lýst starf til um­sóknar þar sem ekki er krafist ís­lensku­kunn­áttu sem ís­lensk mál­nefnd segir stangast á við lög. Ráð­herra vísar því á bug.

Efast um að ný starfs­aug­lýsing Ás­laugar Örnu sam­ræmist lögum

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, efast um að starfsauglýsing sem birtist á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins síðasta mánudag samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Ráðherra deildi auglýsingunni í gær og stærði sig af því að þarna væri í fyrsta skipti auglýst starf í íslensku ráðuneyti þar sem íslenskukunnátta væri ekki skilyrði. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×