Innlent

Talið nauðsynlegt að breyta um­deildu á­kvæði í kosninga­lögunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kosið var eftir nýjum kosningalögum í fyrsta skipti í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.
Kosið var eftir nýjum kosningalögum í fyrsta skipti í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að gera breytingar á nýjum kosningalögum sem tóku gildi um áramótin. Nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar eru sagðar hafa varpað ljósi á ýmislegt sem betur mætti fara. Nauðsynlegt er talið að breyta umdeildu ákvæði um hæfi kjörstjórna.

Frestur til að gera athugasemdir og senda inn tillögur til dómsmálaráðuneytisins um það sem betur má fara í lögunum rennur út á morgun.

Í samráðsgátt stjórnvalda er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt sé að gera breytingar á ákvæðum laganna um hæfi kjörstjórna og kjörstjóra.

Ný kosningalög tóku gildi um áramótin. Í 18. grein laganna, þar sem kveður á um hæfi kjörstjórnarmanna, segir að fulltrúi í kjörstjórn teljist vanhæfur og beri að víkja sæti ef ...

Maki kjörstjórnarmanns, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða skyldur eða mægður honum að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.

Þetta varð til þess að kjörstjórnir víða um land lentu í stökustu vandræðum með að manna kjörstjórnir, líkt og fjallað var um á Vísi í aðdraganda kosninganna. Átti þetta sérstaklega við í minni sveitarfélögum.

Skýringarmynd sem sýnir hvað gerir kjörstjórnarmann vanhæfan samkvæmt gildandi kosningalögum.

Þannig þurfti reynslumiklir kjörstjórnarmenn að víkja. Á Akranesi þurfti til dæmis allir aðalmenn í kjörstjórn að víkja sæti vegna fyrrgreindra tengsla við frambjóðendur.

Sem fyrr segir er talið nauðsynlegt að bregðast við þessu og er stefnt að því að gera breytingar á kosningalögunum. Frestur til að gera athugasemd eða senda inn tillögu rennur út á morgun.

Nú þegar hafa þrettán athugasemdir borist, þar á meðal frá yfirkjörstjórn Akureyrar þar sem því er fagnað að til standi að breyta ákvæðinu um hæfi kjörstjórna.

Í umsögn sveitarfélagsins Fjarðarbyggðar, sem byggð er á ábendingum frá yfirkjörstjórn sveitarfélagsins, segir að líklega hafi það komið öllum á óvart hversi margir urðu vanhæfir vegna umrædds ákvæðis. Í Fjarðarbyggð hafi um 42 prósent af aðal- og varamönnum verið vanhæf, þar af fimm af átta formönnum kjörstjórna.

Senda má inn umsögn í gegnum samráðsgátt stjórnvalda. Fresturinn rennur sem fyrr segir út á morgun.


Tengdar fréttir

Kjör­stjórnir í stökustu vand­ræðum víða um land

Ljóst er að kjórstjórnir víða um land eru í stökustu vandræðum vegna nýrra hæfisviðmiðna nýrra kosningalaga. Formenn kjörstjórna syrgja ekki síst vana starfsmenn hafa gegnt lykilhlutverki á kjördag en hafa nú þurft að víkja sæti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×