Innlent

Sólon R. Sigurðs­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Sólon R. Sigurðsson var bankastjóri Búnaðarbankans á árunum 1990 til 2003 og síðar annar bankastjóra KB banka á árunum 2003 til 2004.
Sólon R. Sigurðsson var bankastjóri Búnaðarbankans á árunum 1990 til 2003 og síðar annar bankastjóra KB banka á árunum 2003 til 2004. Aðsend

Sólon R. Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, er látinn, áttræður að aldri. Hann lést á Landspítalanum síðastliðinn þriðjudag.

Sólon var áberandi í íslensku viðskiptalífi um áratuga skeið og var meðal annars bankastjóri Búnaðarbankans á árunum 1990 til 2003, eða þar til að bankinn sameinaðist Kaupþingi. Hann varð þá annar tveggja bankastjóra sameinaðs banka, KB banka, og gegndi þeirri stöðu til ársins 2004.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Sólon fæddist þann 1. mars 1942 og stundaði nám í Gagnfræðiskólanum við Vonarstræti og svo Menntaskólanum í Reykjavík áður en hann hóf störf hjá Landsbankanum. Í byrjun áttunda áratugarins starfaði hann hjá bönkum í bresku höfuðborginni London áður en hann sneri aftur til Landsbankans.

Hann var svo ráðinn aðstoðarbankastjóri Búnaðarbankans árið 1983 og tók svo við bankastjórastöðunni árið 1990.

Sólon átti sömuleiðis sæti í fjölda stjórna og var meðal annars stjórnarformaður fjölda fyrirtækja sem bankar áttu í sameiningu líkt og VISA Ísland. Auk þess var hann um tíma formaður sóknarnefndar Víðistaðasóknar í Hafnarfirði og sat í stjórn Handknattleiksráðs Reykjavíkur, auk þess að vera formaður Golfklúbbsins Jökuls.

Eiginkona Sólons var Jóna Vestfjörð Árnadóttir, en hún lést í síðasta mánuði. Þau áttu saman þrjú börn – þau Guðrúnu Margréti, Sigurð Magnús og Árna Val. Barnabörn þeirra Sólons og Jónu eru orðin níu og barnabarnabörnin sex.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.