Innlent

Sneru við sýknudómi manns sem nauðgaði fyrrverandi kærustu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti í gær.
Dómurinn var kveðinn upp í Landsrétti í gær. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur snúið við sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem gefið var að sök að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni. Var manninum gert að sæta fangelsisrefsingu í þrjú ár en héraðsdómur hafði áður sýknað manninn vegna sönnunarskorts.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa þvingað konuna til munnmaka og haft við hana samræði í tvígang með því að beita hana ólögmætri nauðung. Í ákæru sagði að maðurinn hafi slegið hana og bitið og tekið hana kverkataki en loks látið af háttsemi sinni eftir að konan hafði ítrekað beðið hann að hætta. Með atlögunni hafi hann ógnað lífi og velferð konunnar en hún hlaut roða, mar, bit- og klórför víða um líkamann.

Maðurinn bar fyrir sig að ekki hafi verið um neins konar þvingun af hans hálfu að ræða en hann gekkst við því að hafa viðhaft þá háttsemi sem lýst var í ákæru. Hélt hann því fram að þau hafi áður stundað sambærilegt kynlíf og konan hafi ekki á nokkurn hátt gefið það til kynna að hún væri mótfallin því.

Ekki var fallist á að tengsl konunnar og mannsins væru með þeim hætti að unnt væri að sakfella manninn fyrir brot í nánu sambandi.

Með hliðsjón af trúverðugum framburði konunnar og ljósmyndum sem samsvöruðu lýsingu hennar var hins vegar talið sannað að maðurinn hafi beitt konunna miklu ofbeldi á meðan kynferðismökum stóð. Var jafnframt talið að ofbeldið félli hlutlægt séð innan verknaðarlýsingar nauðgunarákvæðisins. Maðurinn var því sakfelldur fyrir nauðgun og refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár.

Héraðsdómur Reykjaness hafði í mars í fyrra sýknað manninn þar sem framburður konunnar var ekki talinn hafa fengið slíka stoð í framburði vitna og framlögðum gögnum að því væri með réttu slegið föstu að maðurinn hafði gerst sekur um nauðgun.

Dóminn má lesa í heild sinni á vef Landsréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×