Innlent

Verkaskipting í nefndum og ráðum borgarinnar gerð ljós í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Það kemur í ljós í dag hvernig flokkarnir fjórir skipa í nefndir og ráð borgarinnar.
Það kemur í ljós í dag hvernig flokkarnir fjórir skipa í nefndir og ráð borgarinnar. Vísir/Ragnar

Borgarstjóri segir að borgarlínu verði flýtt svo hægt verði að hefja uppbyggingu á Keldnalandinu sem fyrst. Gripið verði til nauðsynlegra mótvægisaðgerða ef þörf krefji eftir áhættumat sem unnið verði af Ísavía vegna uppbyggingar við Reykjavíkurflugvöll. Verkaskipting nýja meirihlutans í nefndum og ráðum kemur í ljós í dag.

Fyrsti borgarstjórnarfundur kjörtímabilsins hefst klukkan tvö í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að á þeim fundi skipi meirihlutaflokkarnir og væntanlega minnihlutaflokkarnir einnig fulltrúa í nefndir og ráð. Þar með birtist verkaskipting meirihlutans á komandi kjörtímabili.

Eitt af áherslumálum nýja meirihlutans er að flýta uppbyggingu húsnæðis í Keldnaholti, sem fyrri meirihluti taldi erfitt að gera án þess að borgarlína kæmi þangað samtímis.

Dagur B. Eggertsson segir liggja fyrir hvaða mál verði ráðist í strax á þessu ári. Nú setjist nýi meirihlutinn yfir tímasetningar verkaefna út kjörtímabilið.Vísir/Ragnar

„Það er talað um að það þurfi að flýta borgarlínu í leiðinni. Við leggjumst þá bara öll á þær árar. Vegna þess að samgöngumálin þurfa auðvitað að ganga upp á nýjum byggingarsvæðum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Meirihlutinn vilji sem allra fyrst kynna skipulagssamkeppni um svæðið í heild sinni þannig að það verði af hámarksgæðum og uppfylli væntingar til Keldnalandsins og holtsins. Í sáttmálanum væri talað um fyrstu breytingar í alls kyns verkefnum sem verði sýnileg á þessu ári.

„En ég á von á að núna setjist nýr meirihluti yfir verkefnin hvert af öðru. Kynni síðan nákvæmari áætlanir á hverju sviði eftir því sem þessu vindur fram,“ segir Dagur.

Eitt þeirra mála sem eru í óvissu milli borgarinnar og yfirvalda eru áform um uppbyggingu á nýju hverfi í Skerjafirði í nágrenni Reykjavíkurflugvallar. Þar talar nýr meirihluti um að tryggja þurfi flugöryggi á flugvellinum en Ísavia og stjórnvöld tala um að tryggja verði rekstraröryggi. Dagur segir hugtökin skyld.

„Næsta skref í þessu er áhættumat sem Ísavia gerir með tilliti til vindafars. Undir því eiga að koma mótvægisaðgerðir sem við munum væntanlega setjast yfir með þeim og vinna þetta í góðu samstarfi,“ segir borgarstjóri.

Fram hafi komið í fyrra mati Ísavia að það væri næsta skref. Dagur treystir sér ekki til að meta hvort þetta tefji byggingarframkvæmdir í Skerjafirði en hann telji vilja allra að húsnæðisuppbygging í borginni gangi eins hratt og vel og hægt væri.

Hvað Sundabraut varðar vilji nýr meirihluti hefja umhverfismat og á sama tíma leiðarval og samráð í tengslum við hana sem fyrst. Bæði göng og brú komi enn til greina samkvæmt því samkomulagi sem meirihlutinn vísi til við samgönguráðherra.

„Þannig að það er vilji allra að besta leiðin verði fundin til að keyra upp framkvæmdina. Og í eins góðri sátt við umhverfið og hægt er,“ segir Dagur B. Eggertsson.


Tengdar fréttir

Vonast eftir hraðri uppbyggingu á kjörtímabilinu

Oddvitar Framsóknarflokksins og Viðreisnar eru bjartsýnir á að framkvæmdir við nýjar íbúðir og Sundabraut geti farið hratt af stað á kjörtímabilinu. Nýr meirihluti sé einhuga um að drífa Sundabraut áfram.

Frítt í sund og strætó fyrir börn einu fingra­för Fram­sóknar að mati Hildar

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir að henni virðist einu fingraför Framsóknarflokksins á málefnasamningi nýja meirihlutans í borginni vera að frítt verði í sund og strætó fyrir börn. Hún kvartar yfir leiðindapólitík sem hafi verið stunduð þegar flokkar voru að máta sig í meirihlutaviðræðum.

Einar tekur við af Degi sem borgar­stjóri árið 2024

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar og borgarstjóri, mun áfram gegna embætti borgarstjóra Reykjavíkur fyrri hluta kjörtímabilsins, eða til ársloka 2023. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, mun síðan taka við embættinu af Degi í ársbyrjun 2024. Á kjörtímabilinu mun Dagur því gegna embættinu í rúmlega eitt og hálft ár, en Einar í tæplega tvö og hálft ár.  



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×