Innlent

Um sex­tíu stað­fest til­felli apa­bólu í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mögulegt að hópsýkingar apabólu muni koma upp hér á landi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mögulegt að hópsýkingar apabólu muni koma upp hér á landi. Vísir/Vilhelm

Líklegt verður að teljast að apabóla muni berast til Íslands á næstunni. Því verða landsmenn að vera sem best undirbúin sem felst í að auka vitund almennings og heilbrigðisstarfsmanna um sjúkdóminn, tryggja hraða og örugga greiningu hans, beita einangrun og sóttkví eins og við á og gefa ráðleggingar um fyrirbyggjandi aðgerðir.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í færslu á vef Embættis landlæknis í morgun. Þar kemur fram að síðastliðinn sunnudag hafi apabóla verið staðfest hjá 59 einstaklingum í níu löndum Evrópu – Portúgal, Spáni, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi – og að auki hafi tíu verið grunaðir um að vera sýktir. Í gær var greint frá því að tilfelli hafi svo komið upp í Danmörku

Sömuleiðis hafi sýkingin greinst í löndum utan Evrópu líkt og Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Ísrael. Er því líklegt að smit séu útbreiddari en núverandi tölur sýna.

Manna í millum

Þórólfur segir að af fyrirliggjandi faraldsfræðilegum upplýsingum sé ljóst að flest smitin hafi orðið á milli manna en ekki frá dýrum í menn og þá við náið samneyti eins og kynmök í mörgum tilfellum.

„Til að minnka líkur á að apabóla berist til Íslands og að frekari dreifing verði innanlands, vill sóttvarnalæknir vekja athygli almennings á eftirfarandi:

  • Forðist náin samneyti við ókunnuga á ferðalagi erlendis þ.m.t. kynmök.
  • Ef einstaklingar sem hafa verið á ferðalagi erlendis fá sjúkdómseinkenni sem bent geta til apabólu (sjá fréttatilkynningu sóttvarnalæknis) er þeim bent á að fara í einangrun og hafa samband við heilsugæsluna símleiðis.
  • Þeir sem eru sýktir þurfa að halda a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá öðrum og forðast að deila fatnaði, handklæðum og rúmfötum með öðrum þar sem að smit getur borist á milli manna á þann hátt. Smitaðir einstaklingar ættu einnig að forðast samneyti við dýr á meðan þeir eru smitandi. Fólk er smitandi þar til að síðustu blöðrur á húð hafa þornað en það getur tekið 2–3 vikur.

Á þessari stundu eru ekki tiltæk hér á landi bóluefni eða veirulyf gegn sýkingunni en í samvinnu við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) er unnið að því að kanna gagnsemi ákveðinna veirulyfja og bóluefna.

Á vegum sóttvarnalæknis er verið að vinna að gerð leiðbeininga fyrir almenning og heilbrigðisstarfsmenn um sýkingavarnir til að lágmarka áhættu á smiti milli manna,“ segir í tilkynningunni frá sóttvarnalækni.

Sjá má viðtal Sindra Sindrasonar við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í kvöldfréttum Stöðvar 2 í spilaranum að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×