Þar segir að markmið ferðarinnar sé að sýna forsvarsmönnum þessara fyrirtækja fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum svo unnt verði að tala íslensku við tölvur og tæki og tryggja þannig framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi.
Auk forseta er sendinefndin skipuð Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, Jóni Guðnasyni, forstöðumanni Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík, og Vilhjálmi Þorsteinssyni, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar.
Dagskrá ferðarinnar hefst í San Jose í Kaliforníu í dag með heimsókn til höfuðstöðva Apple og Meta þar sem fundað verður með forsvarsmönnum fyrirtækjanna. Á morgun, þriðjudag, verður fundað með framkvæmdastjóra gervigreindarfyrirtækisins Open AI.
Á miðvikudag verður flogið frá San Jose til Seattle. Þá um kvöldið opnar forseti Íslands viðburð í Norræna safninu í Seattle þar sem leiddir verða saman fjárfestar og fulltrúar nýsköpunarfyrirtækja í tækniiðnaði. Fimmtudaginn 19. maí flytur forseti svo erindi á norrænni nýsköpunarráðstefnu, Nordic Innovation Summit, sem fram fer í Norræna safninu í Seattle.
Síðar þann dag heldur sendinefndin til höfuðstöðva Amazon og Microsoft þar sem fundað verður með forsvarsmönnum fyrirtækjanna. Á fimmtudagskvöld verður svo flogið til Boston. Þar mun sendinefndin heimsækja tækniháskólann í Massachusetts (MIT) á föstudag og eiga fundi bæði með forsvarsmönnum háskólans og íslenskum starfsmönnum sem stunda þar rannsóknir og kennslu.
Flogið verður aftur til Íslands á föstudagskvöld.