Lífið

Tók upp leyni­legt uppi­stand ef ske kynni að hann félli frá

Árni Sæberg skrifar
Von er á nýju efni frá Norm Macdonald.
Von er á nýju efni frá Norm Macdonald. Gabe Ginsberg/Getty Images

Grínistinn Norm Macdonald lést í september í fyrra en þrátt fyrir það mun hann gefa út nýtt uppistand á næstu dögum.

Macdonald lést eftir níu ára baráttu við krabbamein sem hann hélt leyndri frá aðdáendum sínum. Hann var mörgum mikill harmdauði enda var hann talinn einn besti grínisti og gamanleikari sinnar kynslóðar.

Honum hefur nú tekist að gleðja marga aðdáendur sína rúmlega hálfu ári eftir andlát sitt. Netflix tilkynnti nefnilega í gær að von væri á nýju efni frá honum.

Sumarið 2020 sló Macdonald alvarlega niður í veikindunum og hann þurfti að gangast undir aðgerð. Kvöldið fyrir aðgerðina ákvað hann að taka upp um klukkustundarlangt uppistand ef ske kynni að aðgerðin færi á versta veg. Þetta segir Lori Jo Hoekstra, samstarfskona hans til margra ára, í samtali við The Hollywood reporter.

„Ætlun hans var að skilja eitthvað sérstakt eftir til að deila ef eitthvað gerðist,“ segir hún.

Þann 30. maí mun Netflix gefa út uppistandið Norm Macdonald: Nothing special, því hljóta flestir aðdáendur gamanmáls að fagna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.