Innlent

Undirskriftamálið á borð héraðssaksóknara

Samúel Karl Ólason og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Þetta er í fyrsta sinn sem atvik sem þetta kemur upp og ekki liggja fyrir verkferlar um hvernig bregðast á við.
Þetta er í fyrsta sinn sem atvik sem þetta kemur upp og ekki liggja fyrir verkferlar um hvernig bregðast á við. Vísir/Sigurjón

Yfirkjörstjórnin í Reykjavík mun vísa undirskriftarmáli E-listans, Reykjavík – besta borgin, til héraðssaksóknara en stjórnin komst að þessari niðurstöðu að loknum fundi í dag.

Birgitta Jónsdóttir, sem skipar 24. sæti á listanum, segir að undirskrift hennar við framboðið hafi verið fölsuð en listinn vill ekki kannast við það.

Þetta er í fyrsta sinn sem atvik sem þetta kemur upp og ekki liggja fyrir verkferlar um hvernig bregðast á við.

Að sögn Evu Bryndísar Helgadóttur, oddvita yfirkjörstjórnar, voru bæði erindi frá listanum sjálfum og Birgittu til umræðu á fundinum, sem hófst í hádeginu og lauk klukkan hálf tvö.

„Við höfum rækilega farið yfir lagaheimildir og reglur sem að við getum stuðst við í þessu álitaefni, sem hefur aldrei komið fyrir áður. Niðurstaðan var sú að við hefðum engar lagaheimildir til að nema nafn frambjóðanda af lista á þessu stigi," segir Eva í samtali við fréttastofu.

Listi flokksins stendur eins og lagt var upp með í upphafi þar sem yfirkjörstjórn hefur ekki úrræði til að sannreyna hvort undirskriftin hafi verið fölsuð. Um sé að ræða orð gegn orði.

Enn fremur væri búið að prenta út kjörseðla, samkvæmt lögum skal það gert í síðasta lagi sjö dögum fyrir kjördag, og því gætu þau ekki breytt listanum jafnvel þó þau vildu.

Gunnar H. Gunnarsson, oddviti Reykjavíkur, bestu borgarinnar, vildi ekki svara spurningum blaðamanns í gær þegar eftir því var leitað um það til hvaða aðgerða flokkurinn myndi grípa til eftir að upp komst að einn frambjóðenda á lista flokksins var þar gegn vilja sínum.

Á blaðamannafundi flokksins í dag kom fram að málið væri til skoðunar innan flokksins en þau vilja ekki kannast við að um falsaða undirskrift sé að ræða.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Íslands í dag um skil E-listans á framboðslistum eftir að RÚV birti myndskeið sem tekið var hjá yfirkjörstjórn í Reykjavík.

Klippa: Ísland í dag - E-listinn skilar inn gögnum


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×