Innlent

Á­kærður fyrir að hafa keypt kyn­líf­s­tæki fyrir fimm stúlkur og svo nauðgað þeim

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn er ákærður í sautján liðum fyrir brot gegn fimm ólögráða stúlkum.
Maðurinn er ákærður í sautján liðum fyrir brot gegn fimm ólögráða stúlkum. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað fjórum ólögráða stúlkum, sumum oftar en einu sinni, ítrekað og beitt þær allar, auk þeirrar fimmtu, ítrekuðu kynferðisofbeldi og -áreiti. Aðalmeðferð í málinu er lokið fyrir Héraðsdómi Reykjaness og er dómsuppsaga á dagskrá 19. maí næstkomandi. Þinghald í málinu er lokað.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn fimm börnum og er ákæran í sautján liðum.

Maðurinn er ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn barni, brot gegn barnaverndar- og áfengislögum og lögum um rafrettur, með því að hafa frá mars til byrjun nóvember í fyrra ítrekað haft kynferðislegt tal við unga stúlku á Snapchat og fengið hana ítrekað til að senda sér kynferðislegar myndir og myndbönd, meðal annars af berum brjóstum og kynfærum. Þetta kemur fram í ákærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum. 

Fram kemur í ákærunni að maðurinn hafi jafnframt sent stúlkunni ítrekað myndir af berum kynfærum sínum auk þess að senda henni myndir af öðrum brotaþola hafa við sig munnmök. Þá hafi hann gefið stúlkunni ýmis kynlíshjálpartæki, nærfötu, nikótínpúða, rafrettur, áfyllingar á rafrettur og áfengi gegn því að hún sendi honum myndefnið. 

Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa nauðgað stúlkunni í tvígang. Hann hafi látið hana hafa við sig munnmök, stungið fingrum í leggöng hennar og fengið hana til að stinga fingri í endaþarm sinn og taka myndband af því sem hún svo sendi manninum. Fram kemur í ákærunni að á tveimur farsímum hans hafi fundist níu myndbönd og 52 ljósmyndir af stelpunni sem sýndu hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, sem hann er jafnframt ákærður fyrir. 

Ákærður fyrir að hafa fengið tvo brotaþola til að taka sig upp i kynlífsathöfnum

Í sjötta lið ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir kynferðislega áretni með því að hafa í upphafi síðasta árs ítrekað fengið aðra stúlku til að senda sér kynferðislegt myndefni, sent henni kynferðislegt myndefni af öðrum stúlkum og gefið henni kynlífshjálpartæki og nærföt gegn því að hún sendi honum kynferðislegt efni. Þá er maðurinn ákærður vegna eins myndbands og þriggja ljósmynda sem fundust á farsímum hans af stelpunni. 

Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa fengið fyrrnefndar tvær stúlkur með ólögmætri nauðung í krafti yfirburðarstöðu sinnar afhent fyrrnefndri stúlku áfestanlegan gervilim og fengið hana og síðarnefndu stúlkuna til að hafa með honum kynferðismök. Hann hafi látið stúlkurnar taka athæfið upp á myndband sem þær hafi svo sent manninum. 

Sagður hafa gefið þeim kynlífshjálpartæki og nærföt

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa beitt þriðju stúlkuna sambærilegri kynferðislegri áreitni á Snapchat árið 2018 með því að hafa fengið hana til að senda sér kynferðislegar myndir og sent henni kynferðislegar myndir og myndbönd. 

Hann er jafnframt ákærður fyrir að hafa nauðgað þriðju stúlkunni tvívegis með ólögmætri nauðung og án samþykkis. Hann hafi annars vegar nauðgað henni í bifreið og hins vegar á gistiheimili. Hann hafi í bæði skiptin tekið myndbönd af nauðguninni og sent þau á stúlkurnar tvær sem nefndra voru hér að ofan. Fram kemur í ákæru að þrjár kynferðislegar ljósmyndir hafi fundist af stúlkunni á síma mannsins. 

Maðurinn er auk þess ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn fjórðu stúlkunni með því að hafa frá því í ágúst 2020 til apríl 2021 ítrekað viðhaft kynferðislegt tal við hana á Snapchat og fengið hana til að senda af sér kynferðislegar myndir og myndbönd. Maðurinn hafi auk þess gefið stúlkunni kynlífshjálpartæki og nærföt og hvatt hana til að nota þau og senda sér myndefni af því.

Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa ítrekað reynt að mæla sér mót við fjórðu stúlkuna í því skyni að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök. 

Fara fram á 2,5 til fimm milljónir í miskabætur

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa viðhaft viðlíka háttsemi við fimmtu stúlkuna á Snapchat. Hann hafi þar talað við hana kynferðislega, fengið hana til að senda af sér myndir og myndbönd og sent henni kynferðislegar myndir og myndbönd af sér og öðru fólki. Fram kemur í ákærunni að hann hafi jafnframt afhent stúlkunni kyhnlífshjálpartæki gegn því að hún sendi honum myndefni. 

Maðurinn er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa reynt að mæla sér mót við stúlkuna til þess að hafa við hana kynferðismök og fyrir nauðgun gegn stúlkunni með því að hafa í júlí 2020 fengið stúlkuna til að fróa sér með notkun kynlífshjálpartækis sem maðurinn gaf henni og taka myndband af því sem hún svo sendi honum. 

Foreldrar fyrstu stúlkunnar fara fram á að maðurinn greiði henni 4,5 milljón króna í miskabætur. Þá fara foreldrar annarrar stúlkunnar fram á þriggja milljóna króna miskabætur. Foreldrar þriðju stúlkunnar fara fram á fimm milljónir króna í skaða-og miskabætur og foreldrar fjórðu stúlkunnar fara fram á 2,5 milljónir króna fyrir hönd sinnar dóttur, sem foreldrar fimmtu stúlkunnar gera sömuleiðis.

Dómur verður kveðinn upp í málinu 19. maí í Héraðsdómi Reykjaness. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×