Tónlist

Vonar að Ís­land verði ó­vænta lagið sem komist á­fram í kvöld

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
38 prósenta líkur eru sagðar á því að Ísland komist áfram upp úr undanriðli Eurovision í kvöld.
38 prósenta líkur eru sagðar á því að Ísland komist áfram upp úr undanriðli Eurovision í kvöld. Vísir

Ísland er ekki á lista yfir þau lönd sem talin eru líkleg að komist áfram upp úr fyrri undanriðli Eurovision í kvöld. Samkvæmt öllum helstu Eurovision-veðbönkum eru 38 prósent líkur á að systurnar komist áfram í kvöld.

Öll von er þó ekki úti en systur eru í tólfta sæti af þeim sautján löndum sem keppa í kvöld. Þær þurfa því að klífa upp um tvö til að komast áfram samkvæmt veðbönkunum. Eins og staðan er núna er Úkraína talin líklegust til að komast áfram upp úr riðlinum og henni spáð sigri í keppninni, þar næst Grikkland og svo Noregur.

Þá er talið að Holland, Armenía, Portúgal, Albanía, Moldóva, Lettland og Austurríki komist áfram. Þar næst, í ellefta sæti veðbanka, er Sviss og svo Ísland í tólfta sæti. 

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og Eurovision-nörd sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að vikurnar tvær fyrir keppnina, þegar æfingarnar eru hafnar, séu veðbankarnir farnir að skírast og sýni ágæta mynd af því hvernig keppnin fari í raun. 

„Núna erum við komin á þann stað að þeir eru komnir helvíti nálægt því. Það að Úkraína sé ennþá með 40-50 prósenta vinningslíkur segir dálítið góða sögu um ástandið,“ segir Jóhannes Þór. Hann segir væntanlega velgengni Úkraínu í keppninni ekkert hafa með lagið að gera heldur stuðning fólks við Úkraínu vegna stríðsins. Lagið sjálft sé raunar hundleiðinlegt. 

Vonast til að Ísland verði óvænta lagið í kvöld

Hann segir fullt af öðrum góðum lögum í riðlinum í kvöld. Ekkert annað land í riðlinum í kvöld en Úkraína sé þó líklegt til sigurs, þó þessi efstu muni líklega raða sér í efstu sætin í úrslitunum. 

„Það er að hluta til vegna þess að þessi stóru fimm lönd: Ítalía, Bretland, Spánn, Frakkland og Þýskaland eru öll með mjög frambærileg lög, kannski Þýskaland síst. Bæði í veðbönkum og nördakosningum á ýmsum vefsvæðum víða um heim þá eru það Ítalía, Svíþjóð, Spánn og Bretland sem eru að raða sér í efstu sætin, sem kemur á óvart það er nýtt,“ segir Jóhannes Þór. 

Jóhannes telur enn möguleika á að Ísland komist upp úr undanriðlinum og það muni fara eftir því hvernig atriði blandist við hin atriðin.

„Við erum á eftir Austurríki sem er mjög keyrslu-júrópop, þannig að kontrastinn er fínn. Við erum í fjórða síðasta sæti sem er flottur staður til að vera á í rennslinu þannig að ég held við eigum alveg ágæta möguleika,“ segir Jóhannes. 

Hann segir mikilvægt fyrir Júró-aðdáendur að hafa það í huga að veðbankarnir séu yfirleitt með sjö eða átta lög rétt í sínum spám. 

„Svo eru einhver tvö til þrjú lög þar sem allir eru... muniði þegar við erum að horfa á að það er verið að opna umslögin og svo kemur „Albanía!“ og við erum öll hissa því það er hræðilegt. Við erum að vonast til þess að það verði öll hin ríkin þegar við komumst áfram í kvöld. Að við verðum óvænta lagið.“


Tengdar fréttir

Sérstök tilfinning að sjá Úkraínu á sviðinu: „Þeir fara bara heim í stríð þegar þeir eru búnir að taka þátt“

Ísland keppir í fyrri undanúrslitariðlinum í Eurovision í Torino í kvöld og segir farastjóri íslenska hópsins stemninguna góða. Veðbankar gefa til kynna að Ísland sé að berjast um sæti í úrslitunum en Úkraína, sem er spáð sigri í keppninni, stígur einnig á svið í kvöld. Gera má ráð fyrir tilfinningaþrungnu andrúmslofti í kvöld þegar þeir flytja sitt lag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×