Innlent

Ís­lendingar senda milljarð í mann­úðar- og efna­hags­að­stoð til Úkraínu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti í dag að Ísland muni auka framlag sitt til mannúðarmála og efnahagsaðstoðar til Úkraínu. Framlagið nemi nú samtals einum milljarði króna. 

Þetta tilkynnti Katrín á framlagaráðstefnu til stuðnings Úkraínu sem fór fram í Varsjá í Póllandi. Ísland hefur þegar lagt til 575 milljónir króna en Katrín tilkynnti í dag um 425 milljónir til viðbótar. 

Af milljarðinum nema framlög til mannúðarmála 510 milljónum króna, 230 milljónum verður ráðstafað síðar til mannúðar- og efnahagsstuðnings við Úkraínu og 260 milljónir fara í sjóð á vegum Alþjóðabankans sem styðja mun efnahag Úkraínu. 

„Með þessu nær tvöföldum við núverandi stuðning okkar við Úkraínu, þar sem megináherslan er áfram á mannúðarmál, stuðning við fólk á flótta og viðkvæma hópa en við leggjum einnig fram efnahagsaðstoð. Við Íslendingar viljum leggja okkar af mörkum á þeim sviðum þar við getum gert gagn,“ er haft eftir Katrínu í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Fundaði með forsætisráðherrum Úkraínu og Pólland og von der Leyen

Þar kemur jafnframt fram að í ávarpi, sem Katrín flutti á fundinum, hafi hún ítrekað fordæmingu íslenskra stjórnvalda á árásarstríði Rússlands. Innrásin væri gróft brot á alþjóðalögum og afleiðingar hennar væru skelfilegar fyrir óbreytta borgara. Sérstaklega þyrfti að huga að áhrifum stríðsins á konur og börn, ekki síst að því er varðar kynbundið ofbeldi og mansal. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjóra ESB í Póllandi í dag.Stjórnarráðið

Katrín nýtti ferðina til að funda með Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands þar sem þau ræddu stríðið í Úkraínu en einnig tvíhliða málefni eins og fyrirhugaða opnun sendiráðs Íslands í Varsjá síðar á þessu ári. Þá fundaði hún jafnframt með Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu.

Katrín fundaði einnig með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB þar sem Úkraína var sömuleiðis efst á baugi og ræddu þær meðal annars þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi. Loks hitti Katrín Rafal Trzaskowski borgarstjóra Varsjár og heimsótti móttökustöð flóttamannastofnunar Noregs sem rekin er í samvinnu við borgaryfirvöld. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×