Innlent

Hótar að velta endur­kröfu yfir á skjól­stæðinga sína

Árni Sæberg skrifar
Sjúkratryggingar Íslands hafa skorað á þjónustuveitandann að velta mögulegri endurgreiðslu ekki yfir á skjólstæðinga sína.
Sjúkratryggingar Íslands hafa skorað á þjónustuveitandann að velta mögulegri endurgreiðslu ekki yfir á skjólstæðinga sína. Stöð 2/Egill

Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér tilkynningu þess efnis að sjúklingar sem njóta greiðsluþátttöku stofnunarinnar eiga ekki að bera fjárhagslegt tjón af endurkröfum sem stofnunin kann að gera á veitendur heilbrigðisþjónustu vegna óviðeigandi reikningsgerðar.

Stofnunin tekur þetta fram þar sem hún hefur orðið vör við það tiltekinn veitandi heilbrigðisþjónustu hafi haft samband við skjólstæðinga sína vegna bréfs sem Sjúkratryggingar sendu honum um mögulega endurkröfu í kjölfar eftirlits stofnunarinnar með reikningsgerð hans. 

Hann hafi tilkynnt skjólstæðingum sínum að þeim yrði sendur reikningur fyrir þjónustu sem þeir hafi þegið ef af endurkröfunni yrði.

Sjúkratryggingar segja viðskipti stofnunarinnar byggja á trausti og að reikningar séu alla jafna greiddir án tafa. Einstaka sinnum komi því miður upp tilvik sem kalla á endurkröfu.

Fordæmalaus hegðun

„Slík atvik eiga ekki að hafa fjárhagslegar afleiðingar fyrir notendur þjónustu enda þiggja þeir hana í góðri trú um fagleg vinnubrögð þjónustuveitenda, meðal annars hvað reikningsgerð varðar, og að reikningar séu í samræmi við samning hans við Sjúkratryggingar og reglur um greiðsluþátttöku,“ segir í tilkynningu Sjúkratrygginga Íslands.

Stofnunin segir jafnframt fordæmi þekkist ekki um að veitandi þjónustu áframrukki til sjúklinga þær upphæðir sem hann ofrukkaði Sjúkratryggingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×