Lífið

Útskriftarnemar HR fara loksins á sína fyrstu árshátíð áður en skólagöngu þeirra lýkur

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Alexander Ágúst Mar Sigurðsson, formaður stúdentaráðs HR, pantaði glimmer þjónustu fyrir árshátíðina og hlakkar til að fagna með samnemendum sínum.
Alexander Ágúst Mar Sigurðsson, formaður stúdentaráðs HR, pantaði glimmer þjónustu fyrir árshátíðina og hlakkar til að fagna með samnemendum sínum. Aðsend

Það ríkir mikil gleði hjá nemendum Háskólans í Reykjavík um þessar mundir þar sem þeir eru loksins að halda árshátíð eftir þriggja ára bið. Veisluhöldin eru þeim án efa kærkomin en fyrir tveimur árum var árshátíðinni aflýst degi fyrir viðburðinn vegna Covid. Blaðamaður hafði samband við Alexander Ágúst, formann stúdentafélags HR, og tók púlsinn á honum.

Hvernig er stemningin fyrir laugardagskvöldinu?

Ég hef bara aldrei upplifað aðra eins stemningu! Á fyrstu mínútunni seldist rúmlega helmingur miðanna upp í gegnum tix.is. Við erum með glimmer þema og HR-ingar tæmdu erlendu vefverslanirnar sama dag og þemað var tilkynnt. Það er náttúrulega ekkert úrval fyrir okkur strákana þannig við í Stúdentafélaginu (SFHR) ákváðum að panta glimmer þjónustu sem verður á staðnum til að glimmera mannskapinn upp. 

Ég persónulega hringdi í Pál Óskar í von um að fá jakkaföt lánuð en það símtal fór nú ekki langt.
Það verður að teljast vel við hæfi að hafa glimmer þema á langþráðri árshátíð. Aðsend

Hefur undirbúningur staðið yfir í langan tíma?

Já klárlega! Hún átti upphaflega að vera 19. mars þannig að undirbúningur hefur líklegast byrjað í október á síðasta ári. Ég held að þetta hafi aldrei verið gert áður, en í ár ákváðum við að fá viðburðarfyrirtækið Senu til liðs við okkur og ég er með eitt lýsingarorð fyrir Sindra Ástmarsson starfsmann Senu. Hann er geit. Einnig er ég ótrúlega þakklátur fyrir alla þá sem hafa komið að þessu úr mismunandi áttum og síðast en ekki síst árshátíðarnefnd Stúdentafélagsins en hún hefur gert frábæra hluti.

Undirbúningur fyrir árshátíðina hófst í október á síðasta ári.Aðsend

Hvað hafið þið þurft að fresta árshátíðinni oft?

Það komu þarna tvö ár í röð þar sem þyrstir HR-ingar voru næstum því þornaðir upp en við erum að vona það gerist nú aldrei aftur. 

Ég var sjálfur í árshátíðarnefndinni fyrir tveimur árum. Þá var allt klárt en árshátíðinni var flautað af daginn fyrir árshátíð þar sem fyrstu takmarkanir landsins vegna Covid ​fengu að líta dagsins ljós, því miður.

Hvað eru margir gestir væntanlegir?

Við í stúdentafélaginu erum að slá eitthvað met held ég. Yfir þúsund manns munu mæta til að rífa þakið af þessari Gróttuhöll, eins og ég vil kalla hana. 

Akkúrat núna eru einhverjir örfáir miðar eftir á tix.is en miðasala er nú opin almenningi! Við vitum samt öll hvernig klassíski Íslendingurinn virkar. Bíður með miðakaup þangað til það verður allt í einu uppselt.

Heldurðu að margir þurfi að skella sér í danskennslu til að rifja upp góða takta á gólfinu eftir langa árshátíðar fjarveru? Hvernig ert þú sjálfur undirbúinn fyrir dansgólfið?

Ég held að lýðurinn sé búinn að vera heima í Singstar og að dilla sér við Youtube allt of lengi þannig fólkið ætti alveg að kunna þetta! 

Pabbi minn er fyrrverandi Íslandsmeistari í samkvæmisdansi þannig ætli ég biðji hann ekki um að kenna mér nokkur spor daginn fyrir árshátíðina!

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.