Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Æ er maður ekki bara manneskja í vinnslu? Ég er forvitin, ástríðufull um að segja sögur og um að vera góð mamma. Ástríðufull almennt.
Hvað veitir þér innblástur?
Bækur, samstarfsfólk mitt, fyrirlestrar og q&a (spurningar og svör) við áhugavert fólk, annarra manna skoðanir, vorið, myrkrið, túlípanarnir sem eru að springa út um þessa mundina í Vesturbænum..
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Ég er kannski ekki manneskjan til að gefa það ráð. Enda mætti ég hlúa töluvert betur að minni andlegu heilsu. En ef ég mætti hér formlega gefa sjálfri mér ráð, myndi ég segja: Aníta plís reyndu að sofa meira, komast oftar í uppáhalds gym tímana þína með Ellý í Reebok og gefðu þér meiri tíma til að lesa. Held það væri mjög sterkur grundvöllur að betri líðan.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Það er bara ekkert slíkt til. Ég hef alltaf unnið sjálfstætt og því engir dagar eins! Þessa dagana er ég hinsvegar í undirbúningi fyrir sjónvarpsseríu sem ég skrifaði svo dagarnir eru annað hvort í skrifum eða vinnu með yndislega leikstjóranum mínum henni Katrínu Björvinsdóttur. Þá tek ég daginn snemma, á ljúfa stund með dóttur minni að koma henni í skólann og reyni svo að nýta þá snerpu og orku sem heilinn hefur svona fyrripart dagsins.
Uppáhalds lag og af hverju?
Úff.. ég er algjör músikperri og elska alls konar tónlist. Fer mjög mikið eftir því verkefni sem ég er að vinna að, hvað ég hlusta á. Ég bý til playlista og nota tónlist til að setja mig í einhvern ákveðin rhythma. Akkúrat þessa dagana er ég mikið að hlusta á „Something in the way“ með Nirvana. Ég held að það bara útskýri sig sjálft.
Uppáhalds matur og af hverju?
Allir vegan réttirnir á veitingastaðnum Hósíló. Ég dýrka þann stað og að borða þar er ferðalag og upplifun.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
ALLTAF að hlusta á innsæið. Það lýgur aldrei.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Fólkið í kringum mig.