Bíó og sjónvarp

Aníta Briem stígur sín fyrstu skref sem hand­rits­höfundur

Árni Sæberg skrifar
Aníta Briem skrifar þættina og fer með aðalhlutverkið.
Aníta Briem skrifar þættina og fer með aðalhlutverkið. Vísir/Vilhelm

Aníta Briem, sem hingað til hefur verið þekkt fyrir leik sinn, hefur lokið skrifum á sjónvarpsþáttaröðinni Svo lengi við lifum. Þáttaröðin er framleidd af Glassriver í samstarfi við Stöð 2. Hún segir þáttaröðina vera óð sinn til ástarinnar.

Aníta vaknaði við það í gærmorgun að Variety, virtasta tímarit kvikmyndabransans, hafði birt umfjöllun um þættina. Það segir hún hafa verið ótrúlega skemmtilegt.

„Það var í fyrsta skipti sem ég hef opinberlega verið titluð sem handritshöfundur, það var alveg ótrúlega skemmtilegt og gríðarlega mikill heiður,“ segir hún í samtali við Vísi.

Ásamt því að skrifa þættina mun hún leika aðalhlutverkið.

„Ég skrifaði þetta bara ein“

Aníta segir hugmyndina að þáttaröðinni hafa blundað í sér um nokkurt skeið og að hún hafi byrjað að setja hugmyndina í seríuform fyrir um ári síðan. 

Síðasta sumar hafi Glassriver komið um borð og það samstarf hafi gengið frábærlega. Hún segir stuðning og innblástur Harðar Rúnarssonar, Abbýar Hafliðadóttur og Baldvins Z hjá fyrirtækinu hafa verið nauðsynlegan til að klára skrifin.

„Það er mynstur hérna, það virðist vera að við, konur og stelpur, viljum að allt sé orðið svo flott og solid áður en við kynnum hugmyndir fyrir öðrum. En strákar eru einhvern veginn miklu óhræddari að setja sínar hugmyndir fram. Þannig að fyrir mig var sá stuðningur, innblástur og trúin á mig frá öllu þessu góða fólki frá Glassriver, það gaf mér ótrúlega mikinn styrk og innblástur til að klára skrifin.

Gríðarlega spennandi að sigla inn í næsta kafla

Næst á dagskrá er ferð til Stokkhólms þar sem þáttaröðin verður kynnt á nokkurs konar sölusýningu á kvikmyndahátíðinni þar á bæ. Framleiðendur þáttanna hafa þegar samið við alþjóðlegan dreifingaraðila en stefnt er að því að sýna þættina um heim allan undir nafninu As long we live. Aníta segir mikla spennu vera fyrir þáttunum erlendis og að hugmyndin hafi þegar fengið góðar viðtökur.

„Nú erum við að sigla hratt inn í næsta kafla sem er náttúrulega gríðarlega spennandi. Það að búa til kvikmyndir og sjónvarpsseríur, það er enginn eyland í þessu. Það tekur gríðarlega mikið af fólki og mikla samvinnu til að svona stórt verkefni komi saman,“ segir hún.

Sköpunargleðin hafi fengið að þrífast hér á nýjan hátt

„Það er dásamlegt að gera seríu hér. Það er rúmt ár síðan ég formlega ákvað að flytja heim og sköpunargleðin og listamaðurinn í mér hafa fengið að þrífast hér á hátt sem ég kannski var ekki búin að upplifa í frekar mörg ár í Los Angeles,“ segir Aníta.

Hún segist hafa fengið að vinna með gríðarlega flottu kvikmyndafólki í öllum hlutverkum hér á landi og að það hafi veitt henni mikinn innblástur við skrif þáttaraðarinnar.

Ekki hefðbundin ástarsaga

Aníta vill ekki fara nákvæmlega í saumana á söguþræði þáttanna að svo stöddu en segir þó að þeir séu ástarsaga en þó ekki hin klassíska ástarsaga sem við heyrum oftast. „Þegar fólk verður ástfangið, lendir í vandræðum og kemst yfir það og einhvern veginn strunsar upp að altarinu.“

„Það sem ég hef áhuga á er langtímasamböndin. Mér finnst svo lítið af sögum vera til um það og ég fann rosalega fyrir því þegar ég er komin inn í þann kafla sjálf í mínu, mér fannst svo ótrúlega fáar sögur vera til að spegla sig í. Þessar sögur hafa miklu meiri áhrif á okkur en við gerum okkur grein fyrir. Sögurnar í kringum okkur eru svona áttavitar í lífi okkar. Ef að manneskja er komin ein út í horn með sitt ástarsamband eða hjónaband, og það er engin saga sem segir að það sé annað fólk að ganga í gegn um sama hlutinn, þá hlýtur sú manneskja að upplifa að það sé eittthvað skelfilegt að henni,“ segir Aníta.

Hún segist vera óhrædd við að velta upp erfiðum spurningum og setja ljótleika upp á borðið. „Oft í lífi fólks getur maður lært mikið af sögum en stundum bara að vita að maður er ekki einn í heiminum, það getur veri ótrúlega dýrmætt og skipt miklum sköpum. Svo þetta er svona óður minn til ástarinnar og lífsneistans sem getur verið alls konar á litinn.“

Þá segir hún að svo virðist sem mikið hungur sé á heimsvísu fyrir slíkum sögum sem fjalla meira um nándina og alls konar ástar- og sálarflækjur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.